Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Svanhildur Hólm ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Hún tekur við starfinu af Ástu Fjeldsted 1. desember næstkomandi.

Svanhildur starfaði við fjölmiðla um árabil en hefur verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra undanfarin ár. Þar áður var hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Elva Björk Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins staðfestir í samtali við fréttastofu að Svanhildur hafi þegar látið af störfum í ráðuneytinu. Ekki liggi fyrir hver taki við stöðu hennar þar. 

Í frétt á vef Viðskiptaráðs fagnar Ari Fenger formaður þess ráðningu Svanhildar. Hann segir reynslu hennar og þekkingu á efnahags- og viðskiptalífi dýrmæta á viðsjárverðum tímum.

Viðskiptaráð hefur starfað í yfir eina öld, eða frá árinu 1917. Yfirlýstur tilgangur þess er að sinna sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífsins, óháð atvinnugreinum eða stærð fyrirtækja, og að efla frjálsa verslun og framtak.

Fréttin var uppfærð kl. 10:32

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV