Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Staðfest kórónuveirusmit í Fellaskóla

09.10.2020 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Alls eru nú 60 til 70 nemendur og sjö til átta starfsmenn Fellaskóla í Reykjavík í sóttkví. Staðfest er að kórónuveirusmit kom upp í tveimur árgöngum skólans í vikubyrjun.

Að sögn Helga Gíslasonar skólastjóra Fellaskóla er það huggun harmi gegn að þetta skyldi eiga sér stað núna en nemendur voru í fríi tvo daga vikunnar vegna samstarfsdags og starfsdags starfsfólks.

Nemendunum og starfsfólkinu er gert að vera heima í viku samkvæmt fyrirmælum smitrakningarteymis. Helgi segir skólastarfið vera að öðru leyti með hefðbundnu sniði en hann verði þó var við að margir finni fyrir kvíða vegna ástandsins.

Það telur hann þó hvorki vera meira né minna en annars staðar í samfélaginu. Allt sé gert til að öllum líði sem best í þessu óvanalega ástandi, „festa er góð,“ segir Helgi Gíslason.