Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Staðan þung í farsóttarhúsinu – sjúkrabílum fjölgað

09.10.2020 - 17:27
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Svo gæti farið að fjölga þurfi plássum í farsóttarhúsinu á næstunni. Álag hefur aukist mikið undanfarna daga. Nú eru 56 í einangrun í farsóttarhúsinu og 32 í sóttkví. Fjölga á sjúkrabílum til að flytja sjúklinga með Covid-19.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra í dag. 

Þrír eru á gjörgæslu í öndunarvél. Mikið álag er á spítalanum, sérstaklega göngudeild Covid 19 samkvæmt skýrslunni. Sjúkraflutningar voru sögulega margir á höfuðborgarsvæðinu í gær eða 150. Þar af voru 48 flutningar vegna kórónuveirunnar. Fleiri bílar verða teknir í notkun til að sinna sjúkraflutningum tengdum kórónuveirunni. 

Í gær var mikið álag í sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34  og mynduðust langar raðir þar fyrir utan. Unnið er að því að slíkt endurtaki sig ekki.

97 greindust innanlands í gær, þar af voru 54 í sóttkví. 8 greindust í skimun við komuna til landsins. Níu innanlandssmitanna voru utan höfuðborgarsvæðisins og dreifðust þau um landið allt að undanskildu Austurlandi þar sem ekkert smit greindist.