Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sláturtíð eftir Gunnar Theodór Eggertsson 

Mynd: RÚV / Forlagið

Sláturtíð eftir Gunnar Theodór Eggertsson 

09.10.2020 - 17:18

Höfundar

„Eins og maður hefur lesið mikið af dýrasiðfræði þá er hægt að greina ansi mikið, en það er voðalega erfitt að koma með skýr svör um hvernig hægt sé að hafa áhrif eða breyta hlutunum þegar við búum í siðmenningu sem er reist á baki fórnardýra og iðnaður sem er svo stór í heiminum að hann er allt í kringum okkur,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson, höfundur skáldsögunnar Sláturtíð, sem er bók vikunnar.  

Í þessari bók segir frá kvikmyndagerðarmanninum Ásbirni Axel sem fær það verkefni að gera heimildamynd um íslenska baráttukonu fyrir dýravernd, Sólveigu Boer. Hún hafði, eftir áratuga róttæka baráttu fyrir réttindum dýra, lent í fangelsi í Hollandi fyrir skemmdarverk og horfið sporlaust eftir að hún var látin laus. Ásbjörn heldur til Hollands í leit að Sólveigu, með viðkomu í Englandi, og reynir að finna slóð hennar meðal dýraverndarsinna, mótmælenda og aktífista. Bókin verður því öðrum þræði lýsing á heimi aðgerðarsinna og baráttufólks af ýmsu tagi, auk þess að draga fram flókin álitamál hvað varðar dýravernd og hugsjónabaráttu almennt.  

Gunnar Theodór hefur áður helst skrifað barna- og ungmennabækur. Hann er með doktorsgráðu í almennri bókmenntafræði og doktorsritgerð hans fjallar um um bókmenntir og dýrasiðfræði og talar einnig í viðtalinu um tenginguna milli fræðastarfa sinna og skáldsögunnar.

Gestir í sunnudagsþætti Erla Elíasdóttir Völudóttir þýðandi og Brynhildur Björnsdóttir bókmenntagagnrýnandi.