Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sextugur brunabíll seldur á 100 þúsund krónur

09.10.2020 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Frank Höybye
Sextugur Bedford brunabíll, sem þjónaði um árabil á Flateyri, verður seldur hæstbjóðanda fyrir 101 þúsund krónur.

Bæjarins besta á Ísafirði greinir frá að bæjarráð Ísafjarðar hafi ákveðið að taka hæsta tilboði í brunabílinn sem er skráður af árgerð 1962. Tvö önnur tilboð bárust í bílinn sem bæði hljóðuðu upp á fimmtíu þúsund krónur.

Jafnframt barst boð frá Samgöngusafninu í Stóragerði í Skagafirði að taka bílinn til varðveislu en án endurgjalds. Þegar bifreiðin fór í lögbundna aðalskoðun í júní hafði henni verið ekið alls 3138 kílómetra.

Að sögn mikils áhugamanns um þessa bíla voru þeir eingöngu framleiddir á árabilinu 1953 til 1956. Upphaflega voru þeir allir grænir á lit enda ganga þeir undir gælunafninu Græna gyðjan. Alls munu hafa komið á sjöunda tug bíla af þessari tegund til landsins sem reyndust ágætlega sem slökkvibílar.

Þeir hafi allir verið bensínknúnir og gríðarlega eyðslufrekir. Í einn þeirra hafi verið sett dísilvél sem hafi dugað illa þegar kom að því að slökkva elda. Brynjar Gunnarsson hjá samgöngusafninu segist í samtali við fréttastofu telja brýnt að varðveita brunabílinn og taldi hann fýsilegan kost fyrir safnið.

Bíllinn var auglýstur fyrr á árinu í samræmi við reglur um sölu lausafjármuna Ísafjarðarbæjar. Axel R. Överby, sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs, óskaði eftir afstöðu bæjarráðs sem tók framangreinda ákvörðun.

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir samskonar bifreið.