Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sautján vilja setjast í Endurupptökudóm

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Sautján sækja um embætti tveggja dómenda og tveggja varadómenda við Endurupptökudóm. Dómurinn er sérdómstóll sem tekur til starfa 1. desember næstkomandi og leysir endurupptökunefnd af hólmi.

Meðal umsækjenda eru lögreglustjóri og saksóknari en jafnframt nokkrir lögmenn og kennarar við háskóla. Dómsmálaráðherra skipar í Endurupptökudóm.

Hlutverk dómstólsins er að skera úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála á öllum dómstigum; héraðsdómum, Landsrétti eða Hæstarétti. Fimm dómarar verða skipaðir, tveir og jafnmargir til vara eftir auglýsingu. 

Þrír og jafnmargir til vara verða tilnefndir af dómstigunum þremur. Dómnefnd fjallar um og veitir umsögn um hæfni þeirra sem sækja um að undangenginni auglýsingu.

Þegar lög um Endurupptökudóm voru samþykkt í maí síðastliðnum sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttastofu RÚV að öll tvímæli væru tekin af um að dómsvaldið væri eingöngu á hendi dómara, sem væri í samræmi við stjórnarskrá.

„Meginreglan um þrískiptingu ríkisvaldsins er þar með fest í sessi og skilyrði um endurupptöku dómsmála einnig rýmkuð,” sagði Áslaug Arna í maí. Hún bætti við að mikilvægast væri að tryggð væri talsverð réttarbót fyrir almenning í landinu.

Dómsmálaráðuneytið auglýsti embætti tveggja dómenda og tveggja til vara 18. september 2020 síðastliðinn. Umsóknarfrestur rann út 5. október.

Þau sem sóttu um eru:

Árni Ármann Árnason, lögmaður.

Árni Vilhjálmsson, lögmaður.

Ásgeir Jónsson, lögmaður. 

Eiríkur Elís Þorláksson, dósent og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík.

Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor.

Finnur Vilhjálmsson, saksóknari. 

Guðrún Björg Birgisdóttir, lögmaður.

Haukur Örn Birgisson, lögmaður.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður. 

Jón Auðunn Jónsson, lögmaður.

Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri.

Reimar Pétursson, lögmaður.

Sigurður Jónsson, lögmaður.

Stefán Geir Þórisson, lögmaður.

Tómas Hrafn Sveinsson, lögmaður.

Tómas Jónsson, lögmaður.

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður.