Óður til áttunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Celebs

Óður til áttunnar

09.10.2020 - 14:46

Höfundar

Tálvon hinna efnilegu er fyrsta plata systkinabandsins Celebs og plata vikunnar á Rás 2. Heildarbragurinn er fyrst og síðast stuðvænn og skemmtilegur.

Celebs er að sönnu vel mönnuð en þrjú tónvís systkin skipa hana, þau Hrafnkell Hugi, Katla Vigdís og Valgeir Skorri Vernharðsbörn. Faðir þeirra er tónlistarmaður sömuleiðis, hefur leikið með Formaika og Geirfuglunum og börnin margverðlaunaðir hljómlistarmenn, hafa öll unnið Músíktilraunir, Katla með Between Mountains og strákarnir með Rythmatik. Valgeir lemur nú húðir með stórsveitinni Mammút og plata Between Mountains með allra bestu frumburðum sem ég hef heyrt.

Umrædd plata er skemmtileg, ég held ég byrji á því að lýsa því yfir, og ég skynja hana sem gáskafyllt frí frá öðrum verkefnum systkinanna. Það er viss leikgleði hér sem er tilfinnanleg, en hér að finna fólk sem hefur einungis upplifað tónlist níunda og tíunda áratugarins í gegnum foreldra sína og sögubækur. Platan er enda einn langur óður til þessa tímabils, langmest til þess fyrra. Fyrir mann eins og mig, sem upplifði þessa áratugi beint, er alltaf athyglisvert að heyra hvernig yngra fólk nálgast þennan brunn. Mér finnst það heillandi, því að ég get aldrei að fullu sett mig í þeirra spor.

Þau eru í svipaðri stöðu og ég, þegar ég skrifa um Bítla eða Zeppelin, tónlist sem var búin til og leikin áður en ég fæddist. Á tálvon hinna efnilegu (dramatískur titill sem hæfir tilburðum margra þeirra sem fylltu níunda áratuginn af tónlist) er þessi tími hylltur með ýktum hætti, eins og svo oft vill verða. Baksýnisspegillinn óhjákvæmilegi gerir þessa hluti frá öndverðu aðeins skýrari (jafnvel einfaldari) en um leið aðeins teiknimyndalegri. Söngröddin verður ögn leikrænni, trommurnar ögn bergmálskenndari, hljóðgervlasprettirnir talsvert uppivöðslusamari. Umslag plöturnar leggur þetta kannski hvað skýrast fram. Það er níunda áratugs bragur yfir því en það er mjög svo greinilega hannað í dag.

„Öfgar göfga“ (einmitt!) opnar plötuna og er dásamleg sönnun á öllu þessu. Hljómborð sem gæti verið úr War of the the Worlds eða Rush lagi rúllar því af stað og við tekur kafli sem minnir á Roxette og Missing Persons á sama tíma. Söngurinn er í ýktum nýrokk/nýrómantík-stíl, óheftur Marc Almond en með skemmtilegri viðkomu í okkar eigin Prins Póló. Athugið að það eru bara 30 sekúndur liðnar af laginu! Já, mikið af tilvísunum og maður glottir óneitanlega út í annað. „Rökkrið rænir æðruleysi“ er hljóðgervladrifið, með einn fótinn í áttunni en hinn í nútíðinni. Platan er aldrei hreinn og beinn óður heldur og stundum er erfitt að greina þetta vísindalega niður, enda mikið af sannanlegu nútímapoppi nú þegar undir sterkum áhrifum frá níunda áratugnum (voðalega er þetta orðið flókið hjá mér). „Kraumar“ er Cure-skotin nýbylgja, kæruleysislega sungið af Kötlu, og dulítið flott „industrial“-motta undir (Front 242 og allt þetta belgíska/kanadíska síð-industrial popp). Og svo má telja.  

Platan er ágætis vitnisburður um að systkinin þekkja fortíð popptónlistar giska vel. Sjálf útfærslan er misvel lukkuð en heildarbragurinn er fyrst og síðast stuðvænn og skemmtilegur, óheft sköpunargleði og „kýlumáþað“ andi sem hífir hana upp undir rest.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Celebs – Tálvon hinna efnilegu

Tónlist

Einlægt alþýðupopp

Popptónlist

Kalla sig „celebs“ og gera grín að smábæjar-kúltúr

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað