Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nadal í úrslit Opna franska í þrettánda sinn

epa08731866 Rafael Nadal of Spain serves to Diego Schwartzman of Argentina during their men’s semi final match during the French Open tennis tournament at Roland ​Garros in Paris, France, 09 October 2020.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Nadal í úrslit Opna franska í þrettánda sinn

09.10.2020 - 16:12
Spánverjinn Rafael Nadal tryggði sér nú rétt í þessu sæti í úrslitaleik Opna franska meistaramótsins í tennis. Nadal sigraði Argentínumanninn Diego Schwartzman í undanúrslitum í þriggja setta leik.

Nadal vann fyrstu tvö settin bæði 6-3 og svo þriðja settið eftir upphækkun, 7-6 (7-0). Þetta er í sextánda sinn sem Nadal keppir á Opna franska mótinu og í þrettánda sinn se hann kemst í úrslitaleikinn. Í öll hin tólf skiptin sem Nadal hefur leikið til úrslita hefur hann hann unnið mótið. Hann er því með 100% sigurhlutfall í úrslitaleikjum mótsins.

Opna franska meistaramótið er eina risamótið í tennis sem leikið er á leirvöllum og því hefur Nadal fengið viðurnefnið Konungur leirsins vegna yfirburða sinna á því undirlagi. Nadal mætir annað hvort Serbanum Novak Djokovic eða Grikkjanum Stefanos Tsitsipas í úrslitum á sunnudag. Þeir mætast í undanúrslitum síðar í dag.

Nadal getur með sigri á sunnudag jafnað Svisslendinginn Roger Federer yfir flesta risatitla í einliðaleik karla frá upphafi. Met Federer eru 20 risatitlar en Nadal hefur unnið 19. Í þriðja sæti yfir flesta risatitla kemur svo Djokovic með 17 risatitla. Sem stendur er Djokovic í efsta sæti heimslistans en Nadal í 2. sæti listans.