Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mögulegt að ástandið skili nýjum lausnum

09.10.2020 - 16:35
Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir / Anna Kristín Jónsdóttir
Skólabörn á Íslandi hafa ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19 farsóttarinnar frekar en aðrir. Síðustu daga hefur hún þó gert enn óþyrmilega vart við sig, hundruð nemanda hafa þurft að fara í sýnatökur og sóttkví og skólastarfið allt úr skorðum. Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir margt leggjast á börn og foreldra þessa dagana, samt sé ekki útilokað að eitthvað jákvætt komi út úr þessari þolraun. 

Foreldrar hafa áhyggjur af að skólarnir loki, börnin þurfi að vera heima og geti ekki haldið sinni rútínu og stundað nám eins og best væri segir Hrefna.  Við bætist svo áhyggjur af sjúkdómnum og smitum, sem geti borist til barna eða inn á heimili. Í skólanum komi jú margir saman, frá ýmsum stöðum og á heimilum geti aðstæður verið mjög misjafnar, jafnvel fólk í áhættuhóp. Allir hafi áhyggjur en starfsmenn skóla hafa sýnt mikla þrautseigju í síbreytilegum aðstæðum. 

Kennarar auðvitað hafa áhyggjur líka. Skólastarfsfólk, kennarar, skólastjórnendur hafa sýnt alveg ótrúlega elju í þessu öllu saman og skipuleggja starfið aftur og aftur út frá þessum nýju aðstæðum.  

Fólki sumpart rórra en í fyrstu bylgju

Í vor heyrðist af því að foreldrar héldu börnum sínum heima en Hrefna telur minna um það nú. Í vor hafi fólk kannski verið hræddara en nú er búið að prufukeyra þetta á einhvern hátt. 

Ég held það séu færri börn heima líka, því það er áhersla á að það sé skólaskylda. Það hefur verið gefið mjög skýrt út hversu mikilvægt það er að börn mæti í skólann.

Foreldraröltið er úti

Menntavísindasvið kynnti nýlega rannsóknir á ástandinu sem gerðar hafa verið meðal kennara. Þar komu í ljós fjórðungur þeirra hefur áhyggjur af aðstöðumun barna í fjarkennslu, tækjakosti nemenda og nettengingu til dæmis. Hrefna segir að töluvert sé leitað til Heimilis og skóla af foreldrafélögum þar sem fólk veltir því fyrir sér hvað má og hvað má ekki. 

Það er ýmiss konar nýsköpun í gangi, það er verið að halda rafræna fundi og vinna verkefni rafrænt. Foreldrarölt, það hentar nú ágætlega því það er hægt að gera það úti. Þó að við segjum alltaf við fólk að það þurfi að taka mið af aðstæðum og tilmælum hverju sinni, eðlilega. Það er ekki verið að stefna saman hópi fólks þegar það er neyðarástand.

Langtímaáhrifin eiga eftir að sýna sig

Það er alveg ljóst að það verða einhver áhrif af svona rosalegum breytingum og inngripi, segir Hrefna. Þó að eflaust eigi eftir að koma í ljós neikvæð áhrif geti líka mögulega komið eitthvað gott út úr þessu. Til dæmis hafi komið í ljós að börn sem eru með skólaforðun una sér betur í fjarnámi. Menn hafi lært að nýta sér tækni í fjarkennslu og svo komi sumum vel að hægja aðeins á.