Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Margir sem eru líklegir til að leggjast inn“

09.10.2020 - 19:36
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Farsóttarhúsið er komið að þolmörkum vegna þess hve margir smitaðir dvelja þar. Búist er við að fleiri verði alvarlega veikir á næstunni og þurfi að leggjast inn á spítala. Sóttvarnalæknir segir ómögulegt að stefna að myndun hjarðónæmis í samfélaginu.

Næstum hundrað smit daglega í fjóra daga

97 smit greindust innanlands í gær. Rúmur helmingur var í sóttkví. 
Að meðaltali hafa næstum hundrað manns greinst á dag síðustu fjóra daga. Hátt í fjögur þúsund eru nú í sóttkví.

24 liggja á Landspítala, þrír á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Hátt í þúsund sjúklingar eru í eftirliti COVID-19 göngudeildar. „Næstu dagana megum við búast við að sjá meiri veikindi, við erum ekki að fara að sjá kúrfuna fara niður held ég á næstunni,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Þórólfur býst við að álíka margir greinist daglega með veiruna á næstu dögum. Hann segir mikilvægt að allir sinni persónulegum smitvörnum og fari eftir fyrirmælum til að hægt sé að ná tökum á faraldrinum. Hugmyndir um hjarðónæmi séu óraunhæfar. „Það eru bara kannski 1-2% af þjóðinni sem hafa smitast. Ef við fáum smit í 10% af þjóðinni þá erum við að horfa upp á eitt til tvö þúsund innlagnir á sjúkrahús, kannski tvö til fimm hundruð manns þurfa að leggjast inn á gjörgæsludeild, og þetta er kannski á nokkrum vikum, og það sjá það allir að heilbrigðiskerfið getur ekki tekið við þessu.“

Til þess að mynda hjarðónæmi þurfi aftur á móti 60% þjóðarinnar að smitast. „Við sáum að það voru 0,3% sem létust í fyrravetur, af þeim sem smituðust, þannig að ef að 10% smitast þá gætum við kannski séð eitt til tvö hundruð dauðsföll,“ segir Þórólfur.

Farsóttarhús komið að þolmörkum

Mikið álag er á almannavarnakerfinu og heilbrigðiskerfinu vegna faraldursins. „Það eru ákveðin hættumerki mjög víða í ferlinu og Landspítalinn - það er þung staða þar - og á COVID-göngudeildinni eru mjög margir í miklu eftirliti og mjög margir sem eru líklegir til að veikjast meira og mjög margir sem eru líklegir til að leggjast inn,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. „Það er mikið álag á símsvörun hjá 1700, það er mikið álag í netspjallinu, bæði hjá okkur, á covid.is og Heilsuveru, það eru þættir eins og farsóttarhúsið, það er komið að þolmörkum þar,“ segir Víðir.

Aldrei hafa verið jafn margir í einangrun í farsóttarhúsi frá því að faraldurinn hófst í fyrravetur. Víðir segir að verið sé að leita að stöðum til að taka á móti veiku fólki sem ekki þarf af vera á sjúkrahúsi en getur ekki verið heima hjá sér. Álagið sé mun meira en var í vetur. Þar eru nú meira en 90 manns, meirihluti þeirra er í einangrun með sjúkdóminn. „Við höfum ekki áður verið með svona mikið af veiku fólki farsóttarhúsinu. Við erum nánast bara með Íslendinga þar sem eru mjög margir talsvert veikir.“ 

Faraldurinn í veldisvexti

Smitin virðast breiðast hratt út í samfélaginu. Fyrir tíu dögum var svokallaður smitstuðull einn, sem þýðir að hver smitaður, sem ekki er í sóttkví, smitar að jafnaði einn annan. Núna er smitstuðullinn þrír, þannig að hver og einn smitar þrjá, sem aftur smita þrjá aðra og svo koll af kolli. „Ef það eru fá smit í þjóðfélaginu þá gerir hár smitstuðull ekki svo mikið til í stuttan tíma. En um leið og það eru orðin svona mörg smit í þjóðfélaginu og þetta er að fara út svona hratt að þá er þetta ávísun á mikinn vöxt,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði. 

Þýðir þetta að faraldurinn sé í veldisvísisvexti? „Já núna tímabundið. Það lítur þannig út og það ræðst á næstu dögum.“