Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lýsa yfir „fullkomnu vantrausti“ til Vegagerðarinnar

09.10.2020 - 07:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Stjórn Sniglanna bifhjólasamtaka lýsa yfir „fullkomnu vantrausti til Vegagerðarinnar og forstjóra Vegagerðarinnar“ í kjölfar umfjöllunar Kveiks í gærkvöld um stöðu vegakerfisins og vinnubrögð stofnunarinnar.

Í umfjöllun Kveiks kom fram að stór hluti vegakerfisins hér á landi beri ekki umferðarþungann. Í sumar varð alvarlegt umferðarslys á Kjalarnesi þegar bifhjól og bíll skullu saman. Tvö létust í slysinu og einn var fluttur slasaður á sjúkrahús. Ökumenn hjólanna virðast hafa misst stjórn á þeim og fljótlega bárust böndin að malbikinu. Slysið varð á sunnudegi en aðfaranótt föstudagsins var lagt nýtt malbik á þennan kafla á Vesturlandsvegi.

Í yfirlýsingu frá Sniglunum segir að svo virðist sem Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, hafi reynt að skjóta sér undan ábyrgð á slysinu miðað við svör hennar í þættinum. Sniglarnir benda á að kvartað hafi verið undan sleipu malbiki á kaflanum daginn fyrir slysið. Vegagerðin hafi því ekki brugðist við og ekki sinnt eftirlitsskyldu þar sem ekki voru sett upp hálkuviðvörunarmerki fyrir slysið.

„Í dag hafa hálkuskilti verið sett upp við flest ef ekki öll þessi hringtorg í tilraun til að losa Vegagerðina undan ábyrgð í stað þess að malbika upp á nýtt með réttum hætti,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Sniglanna, sem gagnrýnir vinnubrögðin harðlega í lok yfirlýsingarinnar.

„Stjórn Snigla lýsir fullkomnu vantrausti til Vegagerðarinnar og forstjóra Vegagerðarinnar enda ljóst að fyrirheit um betri vinnubrögð eru ekki annað en orðagjálfur. Fyrir hönd okkar félaga getum við ekki fallist á að lífi okkar sé stofnað í hættu vegna vanhæfni.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV fréttir
Sniglarnir minntust þeirra sem létust á samstöðufundi í sumar.