Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Laxeldi nær þrefaldað í Reyðarfirði

09.10.2020 - 21:21
Laxeldi nær þrefaldast í Reyðarfirði á næstu tveimur árum eftir að Laxar fiskeldi fengu nýtt og umfangsmeira starfsleyfi. Fyrirtækinu er skylt að hvíla eldissvæði í heilt ár eftir slátrun.

Laxar settu fyrstu seiðin í sjókvíar í Reyðarfirði sumarið 2017 og höfðu leyfi til að ala 6 þúsund tonn. Eftir að áhættumat Hafrannsóknarstofnunar var rýmkað sótti fyrirtækið um stækkun og hefur nú fengið leyfi fyrir 16 þúsund tonna eldi. „Þetta þýðir að heildarútflutningsverðmæti félagsins verða 12-15 milljarðar eftir 2 ár. Þannig að þetta skiptir gríðarlega miklu bæði fyrir félagið, fyrir samfélagið hér fyrir austan og þjóðfélagið allt,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis.

Laxar ætla að fjárfesta fyrir 2-3 milljarða í búnaði vegna aukningarinnar og þá þarf að fjölga starfsmönnum á Austurlandi sem verða orðnir tæplega 40 í lok árs. „Síðan hefur Búlandstindur sem sér um vinnslu á öllum afurðum, bæði okkar og Fiskeldis Austfjarða, verið að fjárfesta núna fyrir 500 milljónir á þessu ári til að mæta aukinni vinnslu á komandi árum,“ segir Jens Garðar.

Hjá Búlandstindi starfa um 45 við laxavinnslu. Nýja starfsleyfið kveður ekki aðeins á um aukið eldi heldur eru þar líka umhverfiskröfur. Frá því að seiði eru sett út og laxi er slátrað líða 12-18 mánuðir og hvíla skal eldissvæði í minnst 12 mánuði eftir hverja eldislotu. Á Reyðarfirði eru fjögur eldissvæði og tvö í hvíld í senn. Eldi fer ekki af stað að nýju nema sýni úr sjávarbotni undir kvíunum komi vel út. „Áður en eldislota hefst á hverri stöð fyrir sig þá sér Náttúrustofa Austurlands um að taka sýni. Botnsýni og sýni í umhverfinu við stöðina. Síðan eru tekin sýni þegar framleiðsla stendur sem hæst og síðan eru tekið sýni eftir að framleiðslu lýkur í hverri eldislotu á hverri stöð. Og sýnin hafa sýnt það með óyggjandi hætti að það er engin uppsöfnun á lífrænum áburði hér á stöðvunum hjá okkur."