Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hver smitaður utan sóttkvíar smitar þrjá aðra

Mynd með færslu
Biðraðir eftir COVID-sýnatöku heyra vonandi sögunni til Mynd: RÚV - Ljósmynd
Hver smitaður einstaklingur sem ekki er í sóttkví smitar að jafnaði þrjá aðra hér á landi. Prófessor í líftölfræði segir að hraðinn á smitunum sé mjög mikill sem endurspegli mikla virkni og samskipti á milli fólks í samfélaginu. Hann segir að aðalatriðið núna sé að fara að tilmælum almannavarna.

Níutíu og sjö greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þremur fleiri en í fyrradag. Af þessum 97 voru 54 í sóttkví, eða rúmlega helmingur. Á fimmta þúsund sýna voru tekin í gær. Þá greindust átta með smit á landamærunum. 24 eru á Landspítalanum með smit, þar af eru þrír á gjörgæslu og eru þeir allir í öndunarvél. Nýgengi innanlandssmita, fjöldi smita á hverja hundrað þúsund íbúa, er nú 213 en hæst var það í byrjun apríl þegar það var 267.

„Hraðinn í smitunum virðist vera mjög mikill“

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og einn af forsvarsmönnum spálíkansins hjá Háskóla Íslands, segir að smitin séu álíka mörg og síðustu daga.

„Það er aðeins hærra hlutfall í sóttkví, sem betur fer. En þetta bendir samt til þess að smitin gangi hratt um í þjóðfélaginu og að smitstuðullinn sé því miður mjög hár, eða um það bil þrír,“ segir Thor.

Hvað þýðir það, að hann sé svona hár?

„Þá eru einstaklingar að dreifa út frá sér á miklum hraða þannig að hver einstaklingur utan sóttkvíar er að jafnaði að ná að smita þrjá aðra. Og hver þeirra er svo að jafnaði að ná að smita þrjá aðra og svo framvegis. Þannig að hraðinn í smitunum virðist vera mjög mikill núna.“

Hvernig getur staðið á því? Hvað getur útskýrt það?

„Þetta endurspeglar auðvitað bara síðustu daga. Og vonandi er þetta að lagast. En þetta varpar ljósi á virknina í samfélaginu, mikil samskipti og svo framvegis. En vonandi skila þessi tilmæli því að við hægjum aðeins á og minnkum samskipti í bili. Það er það sem er aðalatriðið núna.“

Thor á ekki von á því að þessar tölur lækki á allra næstu dögum.

„Það tekur smá tíma, að aðgerðirnar nái að hafa áhrif. Þannig að við verðum aðeins að bíða þangað til stjórnin er komin. Það tekur allt að tvær vikur jafnvel. Þannig að við verðum að fylgja þessum tilmælum, það er ekkert annað í boði,“ segir Thor.