Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa áhyggjur af flugi til og frá Húsavík

09.10.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sveitarstjórinn í Norðurþingi telur að framtíðarskipan flugs til og frá Húsavík sé í óvissu. Flugfélagið Ernir hefur flogið til Hafnar í Hornafirði, Bíldudals, Gjögurs og Húsavíkur en í sumar voru allar flugleiðirnar boðnar út nema leiðin til Húsavíkur.

„Og við höfum auðvitað áhyggjur af því að það geti mögulega haft áhrif á flugleiðina Húsavík-Reykjavík. Ef hún stendur ein eftir þá er væntanlega erfitt fyrir félagið að sinna aðeins þeirri leið,“ Segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi. Sveitarfélagið tók málefnið fyrir á fundi byggðarráðs í gær og lýsti yfir miklum áhyggjum vegna óvissu um framtíðarskipan flugs til og frá Húsavík.

Hefði mikil áhrif að flug legðist af

Kristján Þór segir gríðarlega mikil lífsgæði fólgin í því að geta flogið beint til höfuðstaðarins og til baka. Ernir hafi sinnt Þingeyingum vel og sveitarfélagið geri kröfu á að umhverfið verði þannig að þeir geti haldið því áfram. Erfiður rekstur flugfélaganna dylst engum og það hefði mikil áhrif á íbúa og ferðaþjónustu framtíðarinnar að flugið legðist af.

„Á síðustu árum hafa þetta verið á milli 10-18 þúsund manns sem að hafa verið að fljúga þennan legg á ári og það er auðvitað bara sér hver maður að það mun skipta máli að geta ekki nýtt sér þessa þjónustu áfram.“ segir Kristján Þór.

Segja enga óvissu um flug til Húsavíkur

Það þurfi að ganga frá því hverjir séu að fara að fljúga svo það komi í ljós hver áhrifin verði á flug til Húsavíkur. Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, sagði í samtali við fréttastofu að engar breytingar væru á áætlun vegna flugs til Húsavíkur og það hefði ekki áhrif á flug þangað að hinir leggirnir þrír færu til einhvers annars. Planið sé frekar fjölga ferðum en að draga úr og detti þessir flugleggir út verði aðrir fundnir í staðinn.