Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Guðni Th.: Þurfum að sýna sama einhug og í vor

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvetur landsmenn til þess að standa saman - þó með tveggja metra millibili. Forsetinn sendi frá sér kveðju í kvöld þar sem hann vitnaði í orð Jóhannesar Kjarvals, um að fólk sem aldrei lyfti neinu í samtaki, verði aldrei þjóð. Nú þurfi þjóðin að sýna sama einhug og reyndist svo vel í vor, segir forsetinn.

Hann hvetur fólk til þess að kynna sér tilmælin á vefsíðunni covid.is, þvoi hendur sínar vel og vandlega og noti grímur þar sem við á. Hann kveðst vita að margir séu orðnir þreyttir á ástandinu, og margir í erfiðri stöðu. „Ég hef sagt það áður og segi það enn, við höfum séð það svartara og munum sjá það bjartara,“ segir forsetinn í kveðjunni og bætir því við að síðar á öldinni gætum við þurft að svara þeirri spurningu hvað við gerðum í COVID-19. „Og þá verður gott að geta svarað: Ég gerði mitt besta, ég sinnti eigin sóttvörnum, ég tók tillit til annarra, ég reyndi að vera hluti lausnarinnar en ekki vandans“.

Kveðju forsetans má lesa í heild sinni á vef forseta Íslands.