Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Glæpaalda á Siglufirði - innbrot í skóla og bíl stolið

09.10.2020 - 09:43
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lögreglan á Siglufirði hefur haft í nægu að snúast undanfarna daga. Innbrot í bíla og hús hafa verið tilkynnt fjórar síðustu nætur. Í gærkvöldi var maður handtekinn grunaður um innbrot í nokkur hús í bænum.

Lögðu hald á hugsanlegt þýfi

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Siglufirði var hald lagt á ýmsa hluti  við handtökuna í gær sem taldir eru tengjast innbrotum undanfarnar nætur. Sá gisti fangageymslur og verður yfirheyrður seinna í dag.

Lyfjum stolið í grunnskólanum

Þrátt fyrir handtökuna héldu innbrotin áfram í bænum í nótt en brotist var inn í Grunnskóla Fjallabyggðar og þaðan stolið lyfjum. Þá var tilkynnt um stolin bíl sem virðist hafa verið notaður í nótt en svo skilað. 

Lögreglan á Siglufirði vildi ekki veita viðtal vegna málsins en sagði í samtali við fréttastofu að málin væru öll í rannsókn. Þá eru íbúar hvattir til að læsa húsum sínum og geymslum. Lögreglan útilokar ekki að um þrjú aðskilin mál væri að ræða. 

Hvetja bæjarbúa til að gera ráðstafanir

Mæðgurnar Ásdís Magnea Erlendsdóttir og Herdís Sigurjónsdóttir stóðu þjóf að verki aðfaranótt miðvikudags hvetja bæjarbúa til að læsa og vera á varðbergi. „Ég bara hvet fólk til að þess að fara varlega, fara yfir þessa hluti og gera ráðstafanir,“ sagði Herdís.