Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Gagnrýnir stjórnvöld sem keyri úrræðalaus í blindni

Mynd: RÚV / RÚV
Sífelldar breytingar á sóttvarnaaðgerðum gerir erfiða stöðu veitingamanna enn verri, segir Ásgeir Kolbeinsson sem rekur veitingastaðinn Punk. Hann segir að það að slaka á innheimtu opinberra gjalda væri skref sem vert væri að taka til að koma til móts við veitingamenn, annars eigi margir yfir höfði sér gjaldþrot.

„Þetta er ástand sem enginn ræður við og ekki hægt að setja neinar forsendur. Auðvitað það sem er verst í þessu er að það er alltaf verið að herða meira og meira. Síðan spyr maður sig, hvernig verður þetta tekið af? Þetta er það sem gerir reksturinn alveg hrikalegan erfiðan. Það er ekkert hægt að plana,“ sagði Ásgeir í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Hann segir að það sem veitingamenn velti helst fyrir sér nú er að ekki sé slakað á innheimtu hjá ríki og lífeyrissjóðum. Það sé erfitt að standa skil á launagreiðslum en þá standa eftir opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur. Hann segir marga eiga yfir höfði sér kröfu um fjárnám vegna þess.

„Eina sem gerist í þannig umhverfi er að það eru einhverjir hrægammar sem geta síðan sópað til sín stöðum og fyrirtækjum, bara með því að kaupa upp eitthvað þrotabú sem annars hefði mátt bjarga frá fjölskyldum eða öðrum rekstraraðilum sem hafa staðið að góðum rekstri til margra ára,“ sagði Ásgeir. 

Liggur við að það væri betra að loka

Þó kórónuveirufaraldurinn myndi líða hjá á næstunni þá er það mat Ásgeirs að staða veitingamanna batni ekki strax í kjölfarið. Vetrarmánuðirnir eru oft reknir á því að reksturinn hafi verið góður mánuðina á undan og jafnvel sumarið á undan. Þess vegna sé nauðsynlegt að sjá aðgerðir frá stjórnvöldum, sama hvað.

„Ofan á það að vera ekki með nein úrræði þá er algjörlega verið að keyra í blindni með þetta allt saman. Það liggur við að það væri betra fyrir okkur að loka í staðinn fyrir að sprikla í þessu með svona svakalegar takmarkanir,“ sagði Ásgeir. 

Hann velti því fyrir sér af hverju ekki sé bara skellt í lás á meðan versta bylgjan gangi yfir.

„Tekjuhliðin er algjörlega hrunin en samt er verið að leyfa okkur að halda opnu, til að gera hvað? Ná í einhverjar krónur til þess að segja: Þið eruð með opið og við ætlum ekki að hjálpa ykkur,“ sagði Ásgeir Kolbeinsson í Morgunútvarpinu á Rás tvö.