Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð sent til stjórnarflokkanna

Mynd með færslu
Jörð hefur hreyfst nokkuð í næsta nágrenni fjalladrottningarinnar, þjóðarfjallsins Herðubreiðar, upp á síðkastið.  Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að senda frumvörp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um Hálendisþjóðgarð og stofnun Þjóðgarðsstofnunar; og þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar, til stjórnarflokkanna til afgreiðslu.

Í frumvarpi um Hálendisþjóðgarð er gert ráð fyrir að land í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gert að þjóðgarði. Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um 30% af öllu landinu, en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar, að því er fram kemur í frétt um málið á vef stjórnarráðsins. Þá er gert ráð fyrir að núverandi virkjanasvæði á miðhálendinu verði skilgreind sem jaðarsvæði, og er lagt til að þau verði ekki friðlýst sem hluti Hálendisþjóðgarðs.

Frumvarp um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða felur í sér að komið verði á fót einni stofnun sem fari með lögbundin verkefni sem nú eru á hendi þriggja stofnana, það er að segja Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og þess hluta Umhverfisstofnunar sem fer með málefni náttúruverndar. Markmiðið með sameiningunni er meðal annars að efla og samhæfa starf sem varðar sameiginleg verkefni þessara stofnanna. 

Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður, eins og aðrir þjóðgarðar, verði sjálfstæð eining innan Þjóðgarðastofnunar.

Þingsályktunartillaga um þriðja áfanga rammaáætlunar er óbreytt frá tillögum sem áður hafa verið lagðar fram á Alþingi. Þar er að finna tillögur til umfjöllunar og ákvarðanatöku Alþingis um virkjanakosti sem ýmist eru flokkaðir í nýtingar-, verndar- eða biðflokk.