Frekari frestanir hjá KSÍ og golfvöllum lokað

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Frekari frestanir hjá KSÍ og golfvöllum lokað

09.10.2020 - 13:31
KSÍ hefur orðið við tilmælum sóttvarnarlæknis og frestað öllum leikjum í Íslandsmóti og bikarkeppnum til og með 19. október. Samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra var heimilt að stunda áfram íþróttir utandyra á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir hertar sóttvarnarráðstafanir.

KSÍ ákvað í fyrradag að gera hlé á mótum sínum í viku. Nú hefur sambandið hins vegar fetað í fótspor annarra sérsambanda innan íþróttahreyfingarinnar og frestað öllu mótahaldi til og með 19. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Fyrr í dag var leik 21 árs landsliða Íslands og Ítalíu í fótbolta sem átti að fara fram á Víkingsvelli í dag frestað um óákveðinn tíma. Leikir A-landsliðs karla í Þjóðadeild Evrópu við Dani á sunnudag og við Belga á miðvikudag munu þó að óbreyttu verða spilaðir samkvæmt áætlun.

Þá hefur Golfsamband Íslands beint þeim tilmælum til golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu að loka golfvöllum sínum. GSÍ biðlar jafnframt til kylfinga að virða þær takmarkanir sem settar hafa verið.