Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjarðaál takmarkar ferðalög starfsmanna

09.10.2020 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Álver Alcoa Fjarðaáls
Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði hefur beint því til starfsmanna sinna að fara ekki til Reykjavíkur eða annarra áhættusvæða að nauðsynjalausu. Starfsmenn sem það gera skuli fara í launalausa sóttkví í 14 daga.

Austurland er nú eini smitlausi landshlutinn svo vitað sé. Aðgerðastjórn þar hvetur Austfirðinga til að ferðast ekki að óþörfu til höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur sent út daglegar tilkynningar þar sem brýnt er fyrir Austfirðingum að standa saman til að verja þá góðu smitstöðu sem er í fjórðungnum. Þar var einn í einangrun um nokkurt skeið í þessari bylgju. Sá kom smitaður til landsins um Keflavíkurflugvöll. Hann er nú laus úr einangrun en þrír eru í sóttkví.

Ekki tíminn fyrir veiðiferðir og vinnustaðaferðir 

Sóttvarnayfirvöld hafa hvatt fólk til að fara ekki út á land nema brýna nauðsyn beri til og aðgerðastjórn á Austurlandi hefur minnt á að veiðiferðir, vinnustaðaferðir og þess háttar teljist ekki til brýnna erinda eins og sakir standa. Þeir sem þurfi að fara skuli gæta að öllum smitvörnum og fara mjög varlega eftir heimkomu. Halda fjarlægð og nots grímu þar sem erfitt er að virða fjarlægðarmörk. Mestar líkur séu á að veikindi komi fram innan sjö daga frá smiti en meðgöngutími smits sé allt að fjórtán dagar.

Fá ekki laun í sóttví nema ferð hafi verið nauðsynleg 

Dæmi eru um að austfirsk fyrirtæki og stofnanir hafi gripið til sérstakra aðgerða til að takmarka ferðir starfsmanna til höfuðborgarsvæðisins. Alcoa Fjarðaál hefur þegar sent starfsfólk heim úr vinnu vegna óþarfa ferða til Reykjavíkur og í gær voru kynntar reglur um ferðalög. Starfsmenn sem ferðast til áhættusvæða, eins og höfuðborgarsvæðisins, fá ekki að snúa aftur til vinnu fyrr en að lokinni 14 daga sóttkví. Hún er launalaus nema ferðalagið hafi verið brýnt; til dæmis læknisferð eða til að vera við útför. Til að sýna sanngirni fá þeir laun í sóttkví sem lögðu af stað áður en reglurnar voru kynntar. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, segir að mikið sé í húfi að fyrirbyggja að smit berist í álverið. Hlutverk Fjarðaáls í smitvörnum á Austurlandi sé stórt enda sé álverið stærsti vinnustaðurinn og þar komi saman fólk úr flestum byggðarlögum Austurlands.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV