Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm fantagóð fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Ministry of Sound - California Soil

Fimm fantagóð fyrir helgina

09.10.2020 - 11:50

Höfundar

Það er seiðandi og ískaldur kokteill í boði fyrir heimasætur í Fimmunni að þessu sinni. Byrjað er í femínisma úr Skíriskógi farið þaðan í prýðilegt indí-rokk og endað á fönkí bleiknefjaslögurum sem eru fullkomnir í bakgrunninn fyrir spæjarana sem berjast gegn glæpaöldunni á Siglufirði.

London Grammar - Californian Soil

Þriðja plata indí-poppsveitarinnar London Grammar frá Skíriskógi í Notthingham-skíri kemur út í febrúar hjá plötufyrirtæki hins goðsagnakennda klúbbs Ministry of Sound sem er líka jóga- og spinninghöll í dag. Lagið California Soil er titillag plötunnar sem er óður til femínisma og að öðlast stjórn á eigin lífi, að sögn Hönnu Reid sem er stjórinn í bandinu.


Cage the Elephant - Skin and Bones

Fimmta plata Kentucky-sveitarinnar Cage the Elephant Social Cues kom út í fyrra og Skin and Bones er líklega síðasti söngull af henni og kannski besta lagið. Saga sveitarinnar er svipuð og saga Pixies og Dandy Warholes. Þeir slógu í gegn á Englandi áður en þeir lögðu Bandaríkin undir sig. En fyrir þá sem ekki vita þá er Cage the Elephant eitt stærsta alternative bandið í USA og eiga flesta númer eitt söngla í sínum flokki á síðasta áratug, frá 2010 til 2020.


Peach Pit - Psychics in LA

Þá förum við til Vancouver og hittum þar kvartettinn Peach Pit sem vinnur að heimsyfirráðum í indí-rokkinu eins og fimmtíu þúsund önnur bönd. Þeir eru rómað tónleikaband og gáfu út aðra plötu sína You and Your Friends fyrr á árinu og sú þykir vera með því betra í kanadísku skilnaðarrokki á árinu.


Budos Band - Long In the Foot

Fönksveitin Budos Band frá Staten Island hefur verið starfandi síðan 2005 og gefið út svona eina plötu á ári af sínu sækadelíska fönki. Nýja platan þeirra heitir Long In the Foot eins og þetta sjúklega töff lag semminnir á einvígi í spaghetti vestra.


Suprise Chef - New Ferrari

Áfram með fönkið en Surprise Chef eru snjóhvítir bleiknefjar sem koma frá Ástralíu og eru ekkert að grínast í New Ferrari sem minnir á kolbikasvart fönk frá áttunda áratugnum. Sveitin hefur gefið út nokkrar plötur en New Ferrari er tekið af þeirri nýjustu All News Are Good News.


Fimman á Spottanum