Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fækkar í ferðaþjónustu en fjölgar hjá ríkinu

09.10.2020 - 09:35
Mynd: RÚV / RÚV
Tæplega 15 þúsund færri starfsmenn fyrirtækja sem tengjast ferðaþjónustu fengu greidd laun í ágúst en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni fækkaði þeim sem fengu greidd laun í flestum atvinnugreinum. Hins vegar fjölgar mest í opinbera geiranum eða um rúmlega sex þúsund.

Launafólki fækkar um 13 þúsund

Hagstofan hefur birt tölur um upphæð launagreiðslna í ágúst, fjölda launagreiðenda og fjölda þeirra sem fengu greidd staðgreiðsluskyld laun. Hagstofan á reyndar gögn um þetta frá 2008. Þegar litið er á vinnumarkaðinn í heild fækkar launafólki um rúmlega 13 þúsund í ágúst frá ágúst í fyrra. Rösklega 223 þúsund fengu laun í fyrra en nú voru það um 210 þúsund. Hér er verið að tala um þá sem fengu staðgreiðsluskyld laun. Þessar tölur geta breyst vegna þess að atvinnurekendur hafa hugsanlega ekki skilað tölum til skattsins og að auki ná þessar tölur ekki til einyrkja eða verktakagreiðslna. Heildarlaunagreiðslur námu um 114 milljörðum í ágúst í fyrra en 112,6 milljörðum í liðnum ágúst.

Fækkar mismikið

Hagstofan skiptir atvinnugreinum niður í ákveðna flokka. Þegar litið er yfir þá hefur launafólki fækkað í nær öllum greinum en þó mismikið. Í landbúnaði og skógrækt hefur til dæmis einstaklingum sem fengu laun fækkað um 150 og í sjávarútvegi um 400. Í flokknum framleiðsla án fiskiðnaðar sem inniheldur nær öll framleiðslufyrirtæki eða iðnað fyrir utan fiskvinnsluna hefur einstaklingum fækkað um tæplega 1500. í byggingastarfsemi, mannvirkjagerð og vinnslu hráefna úr jörðu fækkaði um tæplega 1400 miðað við ágúst í fyrra.

Fjölgar hjá ríkinu

Það má segja að eini flokkurinn þar sem hægt er að tala um fjölgun sé í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í ágúst í fyrra fengu yfir 68 þúsund starfsmenn greidd laun. Þessi tala hækkaði talsvert í ágúst á þessu ári eða upp í um 74.500. Fjölgun um rösklega sex þúsund manns.

Fækkar mest í ferðaþjónustu

Það kemur kemur ekki á óvart þegar litið er á starfsgreinar sem tengjast ferðaþjónustunni að þar hefur hallað undan fæti. Samtals hefur starfsmönnum gististaða og veitingastaða fækkað um tæplega 6400 eða úr rösklega 19 þúsund í tæplega 13 þúsund. Fækkunin nemur þrjátíu og þremur prósentum eða þriðjungi. Fækkunin er 46% á gististöðum og 23 í veitingageiranum. Launagreiðendum í þessum flokki hefur fækkað um tæplega 250. Þá er sérstakur flokkur sem nær yfir ferðaskrifstofur og skipuleggjendur ferða. Þar hefur fækkunin orðið 48% eða nær helmingur miðað við ágúst í fyrra. Launagreiðendum í þessum flokki fækkar um 170. Voru yfir 600 í fyrra. Í flokknum sem kallast Einkennandi fyrir ferðaþjónustuna hefur fækkað um rösklega 11 þúsund launamenn. Úr yfir 31 þúsund niður í rúmlega 10 þúsund. Undir þennan flokk heyrir ýmis konar starfsemi sem tengist ferðaþjónustu, svo sem millilandaflug og innanlandsflug, krár og kaffihús, bílaleigur og tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt. Launagreiðendum fækkar um tæplega 500, voru yfir 2200 í ágúst í fyrra.

Sjáum hvar breytingarnar eru

Kristín Arnórsdóttir sérfræðingur á Hagstofunni hefur unnið við þessa tölfræði. Tekur hún að þessar tölur varpi ljósi á ástandið á vinnumarkaði eins og það er núna?

„Já þær eru góðar til að sjá hvar breytingin er að gerast. Við erum með niðurbrot atvinnugreina og við sjáum til dæmis að mesta breytingin er í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar og gistiheimilum, gististöðum og veitingahúsageiranum, “ segir Kristín

En hver er skýringin á því að það fjölgar hressilega í opinbera geiranum?

„Hluti af skýringunni er væntanlega aukin umsvif heilbrigðiskerfisins. Það eru fleiri starfsmenn sem þurfa að sjá um skimanir og allt sem tengist heimsfaraldrinum.“
 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV