Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Enginn elskar COVID. Nema COVID elskar COVID" 

09.10.2020 - 14:07
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Börn sem mættu meira í leikskólann í fyrstu bylgju COVID höfðu minni áhyggjur af ástandinu en þau börn sem voru aðallega heima. Þetta kemur fram í óformlegri könnun sem Ingi Jóhann Friðjónsson, leikskólakennari gerði meðal elstu barna leikskólans Lundarsels á Akureyri.

Tók viðtöl við yfir 20 börn

Rannsóknin var gerð í samvinnu við alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum vegna Alþjóðadags kennara. Tekin voru viðtöl við yfir 20 nemendur leikskólans. Af samtölunum má draga þá ályktun að þau börn sem mættu meira í leikskólann í apríl og maí höfðu minni áhyggjur af ástandinu en þau börn sem voru aðallega heima. Viðtöl við börnin má heyra í spilaranum hér að ofan. 

Börnin fengu val um að taka þátt í spjallinu og reynt var eftir fremsta megni að fá upplýst samþykki fyrir að nota viðtölin í myndbandsgerðina. Að því er fram kemur á heimasíðu skólans. Ýmis áhugaverð ummæli komu fram eins og sjá má hér að neðan. 

„Maður sem borðaði úldna leðurblöku"

„Það var reyndar pínu skemmtilegt þegar það var mikið COVID og að ég hitti ekki vini mína. Þá gat ég lært alveg ein og bara fá mér frið.

„Það var pabbi að vaska upp, mamma var í tölvunni og bræður mínir voru í símanum og vildu ekki leika við mig."

„Ég mátti ekki heldur fara pínu í heimsókn. Það mátti ekki koma líka heim til mín. Þá gleymdi ég næstum þvi hvað þau heita." 

„Ég veit af hverju kórónaveiran kom. Útaf því að einhver maður sem borðaði úldna leðurblöku. Ég veit það útaf því að Yrja vinkona mín sagði mér það. Og afi hennar, langafi hennar fékk COVID og dó." 

„Líka engin elskar COVID. Nema COVID elskar COVID"