Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dagar fríhafna taldir

09.10.2020 - 07:30
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia commons
Í Noregi er því spáð að heimsfaraldurinn vegna kórónuveirunni marki endalokin á rekstri fríhafna á helstu flugvöllum landsins. Að fók fái aldrei aftur að kaupa áfengi á niðursettu verði eftir að það stígur út úr millilandaflugvélum.

Fyrst sáu menn að með kóronaveirunni hurfu nær allar tekjur ríkiisns af rekstri fríhafna á millilandaflugvöllum landisns. Ein besta tekjulind Avinor – sem gegnir sama hlutverki og Isavía á Íslandi – þornaði skyndilega upp með takmörkunum á utanlandsferðum fólks í mars í vor. 90 prósent af umferðinni hvarf á einum degi – og þar með farþegarnir sem venjulega staldra við í fríhöfninni og kaupa vöru á niðursettu verði. Mest af því er skattfrjálst áfengi. En nú koma sárafáir farþegar í fríhafnirnar og sárafáar flöskur seljast.

Rekstur flugvalla ríkinu þungur

Þetta er auðvitað áfall fyrir ríkið því hagnaðurinn af rekstri fríhafna á fjórum stærstu flugvöllunum dugði til að reka alla aðra 39 flugvelli landsins. Nú þarf að finna nýja peninga til að halda flugi innanlands uppi þar til ferðir til útlanda hefjast af fullum krafti á ný og áfengið fer að fljóta út úr fríhöfnunum eins og var fyrir daga veirunnar.  En svo fóru að heyrast raddir vantrúaðra. Virtur hagfræðingur að nafni Harald Magnús Andreassen, byrjaði á að fullyrða að allur þessi útreikningur væri á misskilningu byggður. Ríkið græddi ekkert á fríhöfnunum – tapaði bara peningum á rekstrinum – og að kostnaðurinn við að reka 39 flugvelli innanlands væri greiddur af fólki sem bara situr heima og kaupir aldrei flösku í fríhöfn.

Fátækir niðurgreiða áfengi flugríkra

Rökin eru þau að ríkið tapi miklu meira á fríhöfnunum en það græði. Tapaðir áfengisskattar af sölu í vínbúðum innanlands nema víst tvöföldum hagnaði af fríhöfnunum. Til þess að vega upp á móti þessu verði ríkið að auka aðrar álögur á fólk. Þeir sem græða á fríhöfnunum sé fólk sem ferðast mikið og þeir sem tapa á rekstrinum er fólk sem ferðast sjaldan eða aldrei. Í raun séu þeir fátækustu látnir niðurgreiða áfengi ofaní flugríkt fólk.
Þetta hefur leitt til efasemda um hvort fríhafnir eigi framtíð fyrir sér eftir að kórónufaraldrium lýkur – hvenær sem það verður. Nú þegar verður ríkið að fjármagna rekstur litlu flugvallana með öðrum peningum og þá hverfur þörfin fyrir að nota hagnaðinn af fríhöfnunum. Þetta gerist á sama tíma og sala á áfengi í einkasölu ríksins – Vinmonopolet – fer vaxandi og meira fæst inn af áfengissköttum. 

Kórónuveiran bjó til tollmúr milli Noregs og Svíþjóðar

Ein af varanlegum afleiðingum krónuveirunnar getur því orðið sú að rekstri fríhafna á flugvöllum verði hætt vegna þess að þær skili ríkissjóði engum raunverulegum hagnaði. Ríkið hefur mestan hag af að selja áfengið í eigin búðum með fullum sköttum.  Kórónaveiran hefur líka í raun myndað einskonar tollmúr við landamærin til Svíþjóðar. Þetta á bæði við um almenna matvöru og áfengi. Salan hefur meira en tövfaldast nokkrum norskum áfengisútsölum nærri landamærunum eftir að veiran fór á stjá. Og matvörukaupmenn græða á tá og fingri. Verslun innanlands hefur aukist umtalsvert eftir að heimsfaraldurinn skall á – og tekjur ríkisins af sköttum og álögum hafa aukist. Vandinn er svo að finna út hvernig eigi að viðhalda þessum verslunargróða í landinu þegar landmæri hafa verið opnuð að nýju. Eitt er að hætta alveg að bjóða fólki að kaupa áfengi skattfrjálst á flugvöllum. Ríkið græðir meira á að selja fólki dropann á fullu verði innanlands. 
 

Gísli Kristjánsson