Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Börn með grímur í Réttarholtsskóla

09.10.2020 - 20:13
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Börnum í Réttarholtsskóla í Reykjavík var boðið að vera með grímur í dag. Þau tóku því mjög vel og nýttu sér það flest en finnst súrt að geta ekki stundað tómstundir sínar og haldið böll og fermingarveislur. Þau hlakka til að deila sögum af ástandinu sem nú ríkir til barna sinna og barnabarna í framtíðinni.

 

Margét Sigfúsdóttir, skólastjóri í Réttarholtsskóla segir að þegar frekari takmarkanir voru settar á varðandi sóttvarnir þann 5. október síðastliðinn þá hafi verið mælst til þess að starfsfólk skólans myndi vera með grímur.

„Fljótlega upp úr þessu fóru krakkarnir að spyrja líka þannig að við ákváðum að taka þetta skrefinu lengra og  bjóða alla vega uppá það að þau væru með grímur í skólanum. “

Þeir nemendur sem fréttastofa tók tali í frímínútum voru flestir mjög jákvæðir gagnvart grímunotkuninni í skólanum. Mörgum finnst grímurnar flottar og börnin eru meðvituð um smitvarnir sínar og annarra og finnst skynsamlegt að bregðast við fleiri smitum. 

„Mér finnst þetta svolítið óþægilegt að sjá alla með grímur. Mér líður eins og að ég sé bara alveg svona eitthvað eins og eitruð. Já en þetta er samt svona mjög mikið að verja.“ 

„Mamma er alltaf að segja við mig hvað þetta eru skrýtnir tímar og þegar við verðum kannski orðnir foreldrar og þá getum við sagt krökkunum okkar hvað gerðist þegar við vorum 14 ára.“

„Við vorum ógeðslega spennt fyrir opnunarballinu en síðan var því frestað og við áttum að fara á árshátíðina en henni var frestað eða því veist það kom ekki einu sinnu. Svar átti  ég náttúrulega að fermast en því var frestað svona 50 sinnum. Já ég er búin að fermast, ég náði því en við eigum samt eftir að halda almennilega veislu,“ sögðu Saga Líf Vilhelmsen og Saga Sjafnar- og Hallsdóttir.

Unglingunum finnst mörgum leiðinlegt að geta ekki mætt á íþróttaæfingar og að þurfa að hanga heima hjá sér eftir að skóla lýkur á daginn.  Þá sé líka súrt að ekki skuli vera hægt að halda skólaböll eða halda uppi félagslífi.

Skólastjórnendur vonast til að geta haldið áfram með skólastarfið eins og það hefur verið.

„Það hefur gengið vel hjá okkur, við  höfum verið heppin, og maður þorir varla að segja frá því af því að maður veit aldrei hvað kemur upp. En meðan að krakkarnir geta verið í skólanum og stundað sitt nám og verið fullan skóladag þá viljum við það.“

 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV