Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Borgarlína ábatasöm en tefur umferð einkabíla

09.10.2020 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Fyrsti áfangi borgarlínunnar skilar 26 milljarða króna ábata umfram stofn- og rekstrarkostnað á þrjátíu árum, samkvæmt nýrri greiningu. Búist er við að línan valdi auknum umferðartöfum fyrir einkabíla á höfuðborgarsvæðinu, en að dauðsföllum í umferðinni fækki.

 

Þetta er í fyrsta sinn sem unnin er félags-hagfræðileg greining á samgönguinnviðum á Íslandi, en sömu aðferðafræði hefur verið beitt til að meta neðanjarðarlestarkerfi og aðrar samgöngur í Danmörku.

Í skýrslunni kemur fram að samfélagslegur ábati af fyrsta áfanga Borgarlínunnar verði um 26 milljarðar króna umfram stofn- og rekstrarkostnað á þrjátíu ára tímabili. Áætlað er að áfanginn verði kominn í gagnið árið 2024. Metin voru áhrif á alla samgöngumáta í nýju umferðarlíkani fyrir höfuðborgarsvæðið.

Einkabílum fækkar um 0,7%

Búist er við að daglegum ferðum með almenningssamgöngum fjölgi um 20%, og ferða- og biðtími styttist. Tíminn sem farþegar spara sér með þessu er metinn á 94 milljarða króna á þrjátíu árum. Vegfarendum sem ferðast með öðrum hætti muni hins vegar fækka lítillega. Daglegum ferðum borgarbúa með einkabílum muni fækka um 0,7 prósent, eða 9000 ferðum á dag. Í skýrslunni kemur fram að þeir sem ferðast með einkabílum muni finna fyrir auknum umferðartöfum. Samfélagslegt tap af þeim er metið á 19 milljarða króna á þrjátíu ára tímabili.

Gert er ráð fyrir að hjólreiðafólki fækki þótt innviðir fyrir það batni. Ábati vegna styttri ferðatíma hjólreiðafólks er metinn á 1,2 milljarða  króna, og samfélagslegur ávinningur vegna fækkunar bílslysa á 2,6 milljarða. 

Aukin notkun almenningssamgangna og hjólreiða er í skýrslunni sögð draga úr bílaumferð sem leiðir af sér minni hljóðmengun, loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. 

Fréttin hefur verið lagfærð. Í fyrri útgáfu stóð að daglegum ferðum með almenningssamgöngum fjölgaði um 13%, og að innviðauppbygging vegna hjólreiða væri metin á 1,2 milljarða króna.