Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Beiðnum um endurhæfingu eftir COVID-19 fjölgar

09.10.2020 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Aðgerðir til að bregðast við útbreiðslu COVID-19 snúast ekki aðeins um að koma í veg fyrir andlát af völdum sjúkdómsins eða fækka innlögnum á sjúkrahús heldur að draga úr langvarandi einkennum. Beiðnum um endurhæfingu fjölgar mikið á Reykjalundi.

Þetta segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar í færslu á Facebook í tilefni af gagnrýni á þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. 

„Í ljósi þess ástands sem er að skapast í þriðju bylgju covid-smita hér á landi er gríðarlega mikilvægt að við stöndum öll saman. Það er eðlilegt að við spyrjum spurninga enda hafa aðgerðirnar mikil áhrif á líf okkar allra, auðvitað mismikið þó,“ skrifar Pétur.

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Pétur og Stefán Yngvason, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, þar sem þeir hvetja til samstöðu í baráttunni. Þeir minna á mikilvægar staðreyndir í ljósi umræðunnar um réttmæti aðgerðanna.

„Covid-varnir snúast ekki bara um að fækka andlátum og spítalainnlögnum (þó það sé sannarlega gríðarlega mikilvægt) heldur ekki síður að fjöldi smitaðra Íslendinga á besta aldri glímir við langvarandi sjúkdómseinkenni jafnvel mörgum mánuðum eftir sýkingu,“ skrifar Pétur.

Hann bendir á að undanfarið hafa viðtöl við einstaklinga sem lengi hafa verið frá vinnu vegna langvarandi einkenna verið áberandi í fjölmiðlum. 

„Beiðnum um endurhæfingu fyrir þessa einstaklinga fjölgar nánast daglega hjá okkur á Reykjalundi,“ skrifar Pétur.