Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðalheiður hjólaði 832 kílómetra á 20 dögum

09.10.2020 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalheiður Einarsdóttir, 96 ára íbúi á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri afrekaði það að hjóla 832 kílómetra á 20 dögum. Aðalheiður er hluti af liði Hlíðar í alþjóðlegri hjólakeppni eldri borgara, Road Worlds for Seniors.

Hlíð í þriðja sæti keppninnar

Þetta er þriðja árið í röð sem Hlið tekur þátt í keppninni en í ár hafnaði liðið í 3. sæti keppninnar með 9.063 kílómetra hjólaða. Rétt á eftir liði frá Kanada sem hafnaði í öðru sæti og liði frá Osló sem sigraði. Alls tóku um 120 lið þátt í keppninni.

Aðalheiður skaraði fram úr

Þó svo að Aðalheiður hafi hjólað lengst allra á Hlíð var hún ekki sú eina sem lagði mikið á sig fyrir liðið en Hlíð átti þrjá keppendur í karlaflokki á topp 15 listanum yfir flesta hjólaða kílómetra og fjóra í kvennaflokki.

Eins og áður segir hjólaði Aðalheiður lengst allra á Hlíð. Á eftir henni kom Snjólaug Jóhannsdóttir  sem hjólaði 725 kílómetra Þá hjóluðu systurnar Áslaug og Hjördís Kristjánsdætur 450 og 475 kílómetra.

Hjá karlmönnunum hjóluðu þeir Snæbjörn Pétursson, Torfi Leósson og Bogi Þórhallsson allir um 670-680 kílómetra.

Geta hjólað og skoðað heiminn í leiðinni

Hjólin eru öll fyrir framan tölvuskjá sem gerir þátttakendum kleift að heimsækja yfir þúsund borgir og bæi á meðan keppni stendur. Það er Ásta Þorsteinsdóttir, sjúkraþjálfari sem heldur utan um verkefnið. Hún segir mikinn áhuga vera á keppninni. 

„Strax á morgnana þá er komin biðröð hérna fyrir utan þegar við komum þannig að þetta er í gangi frá átta til fjögur, bara látlaust,“ sagði Ásta í samtali við fréttastofu.