Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja skapa allt að 7.000 störf

08.10.2020 - 10:14
Logi Einarsson
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - Ljósmynd
Samfylkingin hélt blaðamannafund núna á tíunda tímanum þar sem kynntar voru áherslur flokksins undir yfirskriftinni Ábyrga leiðin - úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Áætlanir Samfylkingarinnar gera ráð fyrir að skapa fimm til sjö þúsund ný störf og minnka atvinnuleysi hér á landi á næsta ári um þriðjung.

 

Þessum markmiðum á að ná með beinum aðgerðum auk atvinnuskapandi skattalækkana fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki. Þá sé nauðsynlegt að efla velferð með því að hækka bætur atvinnuleysis- og almannatrygginga og létta undir með sveitarfélögum í þeirra þröngu stöðu, en hvort tveggja styðji við heildareftirspurn í hagkerfinu. 

Samfylkingin vill fara að fordæmi annarra Norðurlandaþjóða og koma á fót grænum fjárfestingasjóði sem myndi leiða umhverfisvæna umbyltingu atvinnulífs hér á landi. Þá vill Samfylkingin lækka óbeina jaðarskatta fólks með lægri tekjur og í millitekjuhóp.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV