Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útlit fyrir svipaðar tölur næstu daga

08.10.2020 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist búast við því að tölur yfir þá sem smitast af veirunni haldist háar næstu daga . Ekki sé ástæða til að breyta leiðbeiningum og tilmælum almannavarna í reglur. Þórólfur Guðnason efast um nytsemi kórónuveiruhjúps sem danir hafa stuðst við.

„Ég held að fyrst og fremst snúist þetta um hvernig við bregðumst við þessu hvert og eitt og fylgjum þessum leiðbeiningum. Hvort þetta heita leiðbeiningar eða reglur breytir ekki neinu, ef fólk vill ekki fara eftir þessu þá gerir það það ekki alveg sama hvernig það er. Við erum bara að höfða til almennrar skynsemi. Ég held að það átti sig allir á stöðunni. Þetta eru tölur sem við eigum eftir að sjá næstu daga, svona háar.“ segir Víðir.

Minni umferð og fólk að venjast aðstæðum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þó að aðgerðirnar séu tiltölulega nýgengnar í gildi sé þegar að sjá minni umferð fólks á höfuðborgarsvæðinu, en þó séu hnökrar á því hér og þar hvort að fólk sé að fylgja leiðbeiningum. Of snemmt sé að spá fyrir um árangur aðgerðanna.

„Mér sýnist nú vera að fólk , það sem maður sér, sé að vanda sig. Maður sér að það er minni umferð á götunum. Okkur er að berast ábendingar frá stórum verslunum að það sé kannski ekki verið að fara eftir þessu, það sé fjöldi fólk sem bíði fyrir utan o.s.frv. Ég vona að þessir staðir ráði bót á því og allir standi saman við þessar aðgerðir og minnki smitlíkurnar sem felast í því að fólk sé að hópast saman, fólk sé í of mikilli nánd, það er það sem þetta gengur allt saman út á, og við verðum að forðast það, hvar sem við erum. hvað sem við erum að gera. Hvort sem við erum í líkamsrækt eða í hlaupahópum eða einhvers staðar annars staðar.“ segir Þórólfur.

Danska leiðin skilar sér ekki

Danir hafa beitt svokölluðum kórónuveiruhjúp, þar sem einstaklingar einskorða samskipti sín við einn ákveðinn hóp og eiga engin samskipti við neinn utan hans. Þórólfur efast stórlega um nytsemi þeirrar aðferðar.

„Það er mjög erfitt í framkvæmd og ég hef heyrt í kollegum mínum í Danmörku. Þeir séu mjög efins um það hvernig þetta skilar sér. Það er hægt að setja alls konar reglur, það er hægt að setja allskonar boð og bönn en á endanum er þetta alltaf spurning um samstöðu og hvað fólk gerir. Ef fólk fer eftir þessum einföldu reglum sem við erum alltaf að hamra á og biðja fólk um að gera þá breyta boð og bönn ekki mjög miklu við það.“ segir Þórólfur.