Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Tímaspursmál“ hvenær veikin fer í eldri hópa

08.10.2020 - 19:53
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Fleiri en þúsund hafa nú greinst með kórónuveiruna í þriðju bylgju faraldursins, um þriðjungur þeirra á síðustu þremur dögum. Unnið er að lausn á útskriftarvanda Landspítalans til að mæta yfirvofandi auknu álagi vegna fjölda smita.

Yfir þúsund smit í þriðju bylgjunni - hátt í 300 á þremur dögum

94 greindust innanlands í gær, allir nema 12 á höfuðborgarsvæðinu. Minna en helmingur var í sóttkví. 846 eru nú í einangrun með sjúkdóminn.

Smituðum á Landspítalanum heldur áfram að fjölga. Þar eru nú 23 sýktir, tólf konur og ellefu karlar á öllum aldri. Þrír eru á gjörgæslu, allir í öndunarvél.

Miðað er við að þessi þriðja bylgja faraldursins hefjist 15. september þegar þrettán smit greindust eftir að veiran hafði legið í hálfgerðum dvala í um einn og hálfan mánuð.  Á þessum þremur vikum sem hafa liðið hafa nú yfir þúsund greinst með veiruna. Um þriðjungur þeirra, hátt í þrjú hundruð smit, einungis á síðustu þremur dögum.

Fyrstu þrjár vikur þriðju bylgju grafík
 Mynd: Fréttir

7% smitaðra þurfa á spítalavist að halda

Um það bil sjö% af þeim sem veiktust í síðustu bylgju þurftu á spítalavist að halda og um 2% lögðust á gjörgæslu. Nú er yngra fólk að greinast, með vægari einkenni, en níu sjúklingar eru með mikil einkenni og gætu þurft að leggjast inn á næstu dögum. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, óttast að alvarlega veiku fólki eigi eftir að fjölga.

„Í mínum huga er þetta bara tímaspursmál þangað til að veikin fer yfir í eldri aldurshópa og yfir í viðkvæma hópa og þá förum við að sjá þessar alvarlegu afleiðingar sem við viljum ekki sjá. Ef tíu prósent af þjóðinni smitast núna og ef við sjáum sama hlutfall, þá sjö prósent af tíu prósentum, það er gríðarlegur fjöldi, þá erum við með hundruð eða þúsundir manna sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús, það er skelfleg tilhugsun.“

Í vor var nýtt hjúkrunarheimili á Sléttuvegi autt. Þangað voru sjúklingar sem lokið höfðu meðferð fluttir, sem skapaði svigrúm til að taka við Covid smituðum á Landspítala. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir að ekkert slíkt úrræði sé nú laust, en lausn á þessu sé forsenda fyrir því að spítalinn ráði við aukið álag sem er yfirvofandi.

„En það eru allir á dekki og heilbrigðisráðuneytið er í mjög öflugu samstarfi við okkur og við bæði hjúkrunarheimili til að finna lausnir þar á, og þær eru að koma en þetta er bara ekki alveg einfalt.

Miðað við hraða þróun síðustu daga og þvílíkan fjölda smita, þarf þetta ekki að gerast fljótt og í rauninni strax?“

„Jú, og það er verkefnið.