Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þriðji samningurinn um bóluefni í höfn

08.10.2020 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Evrópusambandið hefur gert samning við lyfjafyrirtækið Janssen Pharmaceutica NV um kaup á bóluefni gegn COVID-19. Samningurinn felur í sér að um leið og prófunum lýkur og niðurstöður sýna að bóluefnið er öruggt og með fullnægjandi virkni sé aðildarríkjum sambandsins tryggður réttur til kaupa á bóluefni fyrir tvö hundruð milljón manns.

Ísland og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins munu njóta sama aðgangs að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og önnur ríki sambandsins. Þetta er þriðji samningurinn sem sambandið gerir við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefni.

Samningurinn felur einnig í sér heimild til kaupa á bóluefni fyrir allt að tvö hundruð milljónir manna til viðbótar og er horft til þess að aðildarríkin geti lagt lágtekjuríkjum til bóluefni.