Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þeim allra fátækustu fjölgar í fyrsta sinn í rúm 20 ár

08.10.2020 - 04:50
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Alþjóðabankinn óttast að þeim sem búa við sára fátækt eigi eftir að fjölga í fyrsta sinn í rúma tvo áratugi vegna kórónuveirufaraldursins. Líkur eru á að allt að 150 milljónir jarðarbúa bætist í þann hóp á næsta ári. 

Þeir sem eru með tekjur upp á 1,9 bandaríkjadali á dag, jafnvirði um 260 króna, eru taldir búa við sára fátækt samkvæmt Alþjóðabankanum. Þeim sem búa við svo bág kjör hefur fækkað jafnt og þétt á heimsvísu undanfarna tvo áratugi. Búist var við því að um 7,9% jarðarbúa byggju við sára fátækt við lok þessa árs áður en faraldurinn skall á. Nú óttast sérfræðingar að hlutfallið verði á milli 9,1 til 9,4% mannkyns. 

Alþjóðabankinn hefur unnið að því markmiði að innan við þrjú prósent jarðarbúa búi við sára fátækt fyrir árið 2030.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV