Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þegar liðið er komið út á völlinn, þá stöndum við saman

08.10.2020 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segjast finna fyrir stuðningi frá ríkisstjórninni gagnvart þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Það sé hlutverk stjórnmálamanna að spyrja gagnrýninna spurninga. Þórólfur segir að þjóðin þurfi að flykkjast að baki aðgerðunum líkt og þegar landslið stígur á völlinn.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn væru ósáttir við þær aðgerðir sem gripið var til í vikunni. Víðir Reynisson segir að það sé úr lausu lofti gripið að óeining sé um aðgerðirnar, hann hafi að minnsta kosti ekki orðið var við það.

„Við upplifum það ekki gagnvart ríkisstjórninni að það sé eitthvað ósætti við það. Við fundum með ríkisstjórninni reglulega og erum með fullan stuðning allra ráðherranna í þessu. Ég held að þetta sé eitthvað orðum aukið. Það er hlutverk stjórnmálamanna að spyrja ágenginna spurninga og við höfum kallað eftir því að fá gagnrýni og rýni á það sem við erum að segja og gera. Þannig á lýðræðissamfélag að virka. Það að einhver hafi skoðun sem öðrum finnst skrýtin, það er bara þannig. “ segir Víðir.

Samstaða mikilvæg

Þórólfur bætti við að það sé mikilvægt að það sé samstaða meðal stjórnvalda um aðgerðirnar. Hann lýti þannig á að fólk geti verið ósammála, en þegar ákvörðun liggi fyrir þurfi fólk að standa saman.

„Það að halda áfram að karpa um það út í hið óendanlega gerir ekkert nema að rjúfa samstöðuna. Ég held að við þurfum að gera þetta á nákvæmlega á sama hátt og við stöndum að baki landsliðinu okkar í knattspyrnu, þó að illa gangi þá getum við gagnrýnt landsliðið, en þegar út á völlinn er komið þá stöndum við saman og hvetjum það áfram. Þannig náum við árangri, við náum engum árangri ef við erum sífella að nuddast og nagast í því sem verið er að gera því hinn eini sanni sannleikur um hvernig á að gera þetta, hann er ekki til“ sagði Þórólfur. 

Róðurinn þyngist á Landspítala

12 konur og 11 karlar eru á Landspítala. Þrír eru á gjörgæsludeild og allir í öndunarvél. 35 hafa lagst inn í þriðju bylgjunni og eru þeir á öllum aldri. 99 bættust á COVID-göngudeildina í gær. 59 eru gulir sem þýðir að þeir eru talsvert veikir og eru ekki batnandi og 9 eru rauðir sem þýðir að þeir eru líklegir til að leggjast inn. Páll Mattíasson forstjóri Landspítala segir að eðli veikinda sjúklinga í þessarri bylgju séu sambærileg við fyrstu bylgju. Farið verður yfir það í óbirtri grein sem væntanleg er á næstunni sem unnin var af rannsakendum á Landspítala.

Þórólfur segist hvetja fólk til að hitta aðeins sína nánustu á næstu dögum og vikum. Fyrir því sé engin formúla eða reglur, fólk verði að hugsa það sjálft hvernig það umgengst fólk, og ef það er í nánum samskiptum eigi það að nota grímu. Hann segist jafnframt hafa trú á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til, en fólk verði þá að fara eftir þeim. Horfa verði fram í tímann, sér í lagi gagnvart álagi á spítalana. 

Þórólfur segir allar þjóðir langt frá hjarðónæmi. Svíar, sem margir renni hýru auga til, séu til að mynda með tíu prósent. Hann segir 1 til 2 prósent hafa fengið sýkinguna en samt sé mikið álag á heilbrigðiskerfið. Það þurfi ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvernig þetta yrði 400 til 500 tilfelli á dag eða 2.000 eins og finnska líkanið hafi sýnt ef ekkert yrði að gert.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV