Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spritta hjólin reglulega og hvetja til handþvottar

08.10.2020 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Nína Hjördís Þorkelsdóttir - RÚV
Þrátt fyrir hertar aðgerðir vegna fjölgunar kórónuveirusmita er ekkert lát á notkun leigðra rafmagnshlaupahjóla. Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri rafskútuleigunnar Hopp, segir fyrirtækið hafa ráðist í aðgerðir til að minnka smithættu á hjólunum.

Rafmagnshlaupahjól hafa notið mikilla vinsælda undanfarna mánuði. Í sumar höfðu um 52 þúsund manns skráð sig inn í smáforrit Hopp, en félagið hefur verið með hundruði hjóla á sínum vegum.

„Við höfðum samband við Embætti landlæknis í mars og spurðum hvort við þyrftum að loka. Embættið vildi það ekki vegna þess að þessi ferðamáti er góður til að halda samskiptafjarlægð. Það er auðveldara að vernda sig á hjólunum en í strætó sem er fullur af fólki,“ segir Eyþór.

Þar sem hjólin eru vanalega leigð til skamms tíma í senn koma fjölmargir við handföng þeirra á hverjum degi. Eyþór segir að starfsfólk hjólaleigunnar spritti hjólin daglega, eða einu sinni á tveggja daga fresti, á meðan þau eru í hleðslu og að það minnki smithættuna. Þá þurfi fólk að gæta að sóttvörnum.

„Við mælum með að notendur passi sig, þvoi sér um hendur fyrir og eftir notkun og hafi ekki hendurnar í munninum á sama tíma og þeir eru á hjólinu sem er ekki mjög erfitt,“ segir hann.

Fyrirtækið hyggst halda áfram leigja út rafmangshlaupahjól í vetur þrátt fyrir að færri noti hjólin þegar kólnar í veðri. „Markmiðið er að vera alltaf aðgengileg. Við förum á nagladekk á sama tíma og bílarnir,“ segir Eyþór.