Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Smit í Háteigsskóla: Á annað hundrað í úrvinnslusóttkví

08.10.2020 - 08:43
Mynd með færslu
 Mynd: Háteigsskóli
Allir nemendur á unglingastigi Háteigsskóla í Reykjavík, auk kennara, eru komnir í úrvinnslusóttkví eftir að smit greindist hjá nemanda í unglingadeild. Unnið er að því að rekja smitið innan skólans, en á meðan eru 144 nemendur og 10-12 starfsmenn í úrvinnslusóttkví.

Arndís Steinþórsdóttir skólastjóri segir í samtali við fréttastofu að nú sé unnið með smitrakningarteymi almannavarna. Á meðan fer fram fjarkennsla í unglingastigi, en Arndís segir skólann hafa lagt mikið upp úr upplýsingatækni sem nú komi sér vel.

„Við höfum færi á að halda skólastarfinu áfram á yngsta stigi og miðstigi, af því við höfum skipt deildunum í sundur. Hér leggjum við áherslu á mjög öflugar sóttvarnir, skiptum fólki upp og pössum að enginn samgangur sé milli deilda. Skólastarfið heldur áfram og það skiptir öllu máli,“ segir Arndís. 

Háteigsskóli lenti illa í kórónuveirufaraldrinum í vor, en þrír starfsmenn smituðust í mars sem varð til þess að skólanum var lokað tímabundið. Arndís segir að allt kapp sé lagt á að halda starfinu gangandi, því það skipti gríðarlegu máli að börn geti verið í sinni rútínu. Skólinn sé samfélagsstofnun og nauðsynlegt sé að fara varlega.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Arndís Steinþórsdóttir skólastjóri.