Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sláandi líkindi milli Tolstoj og Guðrúnar frá Lundi

Mynd: RÚV / Kiljan

Sláandi líkindi milli Tolstoj og Guðrúnar frá Lundi

08.10.2020 - 08:50

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að Tengdadóttirin eftir Guðrúnu frá Lundi sé næm og skemmtileg frásögn af óhamingjusömu hjónalífi og Sverrir Norland gengur svo langt að líkja henni við einn af risum rússnesku bókmenntahefðarinnar.

Í Tengdadótturinni er sagt frá Þorgeiri á Hraunhömrum sem giftist ekki bara einu sinni, heldur tvisvar, til fjár. „Eins og við vitum sem höfum legið í bókum þá er það ekki uppskrift að hamingju,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. Henni finnst aðalpersónan Þorgeir ekki alveg nógu heilsteypt persóna. „Mér finnst hann dáldið þokukenndur. Hins vegar eru þarna aðrar persónur ljóslifandi, sérstaklega fyrri eiginkona hans Ástríður sem er sögð „ógirnileg“ og mikið er lagt upp úr að lýsa hvað hún er hræðileg og leiðinleg.“ Þá takist Guðrúnu mjög vel upp með að lýsa andrúmslofti á óhamingjusömu heimili. 

Annað stórt einkenni á verkum Guðrúnar sé að slúður sé þar í stóru hlutverki. „Eins og í raunverulegu lífi,“ segir Kolbrún. Sverrir Norland kom að bókinni án þess að hafa lesið neitt eftir Guðrúnu áður. „Ég datt algjörlega inn í hana og fannst hún virkilega skemmtileg. Það truflaði mig ekki að Þorgeir væri þokukenndur, mér finnst allt í lagi að burðarpersóna í svona verki sé hæfilega litlaus, svo fylgjum við honum í gegn um litríku persónurnar allt í kring.“ Sverri varð meira að segja hugsað til kanóna heimsbókmenntanna við lesturinn. „Líkindin milli sögustíls Guðrúnar frá Lundi og Tolstojs eru sláandi í mínum huga. Því þetta er svo hrein frásögn, hún þvælist aldrei fyrir sjálf eins og sumir stóru stílistarnir okkar.“

Þá sé í bókinni einnig að finna greiningu á ýmsum erkitýpum og eitraðri karlmennsku sem enn eru ríkjandi í samfélagi nútímans. „Þarna er þannig kall að stýra bóndabúi en við vitum að fyrirtækjum í dag er stýrt af svona köllum. Guðrún skilur þetta svo vel og miðlar á svo fínan hátt. Hún hefur þennan mannskilning sem góðir höfundar þurfa að hafa.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ferrante er eins og borðtennismeistari gegn áhugamanni

Bókmenntir

Enginn er syndlaus og syndin er víða

Bókmenntir

Svör við óleystum gátum í dauðadjúpum sprungum

Bókmenntir

Bóksali í kulda og trekki