Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ummælin vísa í samtöl við bændur

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Alþingi
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra segir að ummæli hans á Alþingi séu vísun í samtöl hans við nokkra sauðfjárbændur sem hafi talað á þessum nótum. Landbúnaður sé og verði alvöru atvinnugrein og hryggjarstykki byggðar í sveitum landsins. 

Þetta sagði Kristján Þór í færslu á Faceboook-síðu sinni í gærkvöldi. Miklar umræður sköpuðust í gær vegna þeirra ummæla hans að margir sauðfjárbændur segðu að búskapurinn væri lífsstíl frekar en spurning um afkomu. Ummælin fengu mjög sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum. Þá sendu Bændasamtök Íslands og Landssamband sauðfjárbænda frá sér yfirlýsingar þar sem orð ráðherra voru fordæmd.

„Og ég legg áherslu á að sauðfjárrækt og aðrar búgreinar eru fyrst og fremst atvinnugreinar sem byggja á þekkingu og miklum hæfileikum til að rækta bústofn sinn og land til að skila hámarksafurðum,“ segir Kristján Þór í færslunni. 

Bændur finni líka fyrir áhrifum kórónuveirunnar

Kristján Þór segir að Landssamband sauðfjárbænda fari með rangt mál. Hann hafi aldrei sagt að afkoma greinarinnar skipti ekki máli. Bændur litist af stöðu mála í þjóðfélaginu eins og aðrir og finni áþreifanlega fyrir afleiðingum kórónuveirunnar. Hann hafi unnið að því að styrkja afkomu þeirra og það hafi tekist, meðal annars með endurskoðun sauðfjársamningsins í janúar 2019. 

Gera úttekt á hagsmunum Íslands af óbreyttum tollasamningi

Þá finnst Kristjáni Þór athyglisvert að aðili sem hafi átt mikinn þátt í að byggja upp starfsskilyrði í íslenskum landbúnaði undanfarin ár og áratugi gagnrýni ummælin. „Snúa út úr þeim og gera mér upp skoðanir í pólitískum hráskinnaleik. Meðal annars aðilar sem bera m.a. ábyrgð á gerð umdeilds tollasamnings við Evrópusambandið. Nú stendur hins vegar yfir vinna, að frumkvæði okkar utanríkisráðherra, við úttekt á hagsmunum Íslands af óbreyttum tollasamningi við Evrópusambandið og í kjölfarið meta hvort óskað verði eftir endurskoðun hans.“ segir Kristján Þór Júlíusson.