Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rétt grímunotkun er mikilvæg svo hún skili árangri

08.10.2020 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Færst hefur í vöxt undanfarnar vikur að fólk beri grímu á almannafæri til að vernda sig og aðra frá að smitast af veirunni. Til að gríman gagnist þarf að hafa nokkur atriði í huga og nota grímuna rétt því annars skilar hún engum árangri.

Leiðbeiningar um grímunotkun er til að mynda að finna á vefnum covid.is. Almannavarnir hafa hingað til ekki mælst til þess að fólk noti grímu þar sem hægt er að tryggja fjarlægðarmörk, hvort sem þau eru einn metri eða tveir metrar. Hlífðargríma kemur ekki í stað almennra sýkingavarna, svo sem handþvottar, hreinlætis og þrifa á snertiflötum.

Grímur ber að nota í almenningssamgöngum, svo sem í strætisvögnum, flugvélum, ferjum, hópbifreiðum og leigubílum. Þá þarf einnig að bera grímu í starfsemi sem krefst nándar og í heilbrigðisþjónustu. Embætti landlæknis gaf út leiðbeiningar um rétta notkun gríma í seinasta mánuði. Þar segir meðal annars:

 • Hafa ber í huga að rök og óhrein gríma gerir ekkert gagn. Hún eykur frekar sýkingarhættu.
 • Það sama má segja um einnota grímur sem eru notaðar oftar en einu sinni.
 • Til að gríma skili tilætluðum árangri þarf hún að hylja bæði nef og munn. 

Önnur atriði sem hafa þarf í huga varðandi grímunotkun eru: 

 • Grímur þurfa að uppfylla skilyrði og kröfur. Best er að þær séu úr þriggja laga efni svo að þær skili góðri vörn. Það sama á við um fjölnota grímur.
 • Einnota gríma endist mest í 4 klukkustundir. Ef bera þarf grímu í lengri tíma en það þarf að endurnýja hana.
 • Passa þarf að gríman snúi rétt. Einnota grímur snúa með bláa hlutann út og hvíta að andlitinu og þannig að spöngin snúi að nefinu og sé aðlöguð að því. 
 • Að lokinni notkun er mikilvægt að henda einnota grímum í ruslið, ekki út í náttúruna.
 • Fjölnota grímu þarf að þrífa að minnsta kosti einu sinni á dag, helst oftar. Annars skilar hún engri vörn og eykur sýkingarhættu.
 • Halda skal snertingu við grímu í algjöru lágmarki, ekki síst þegar hún er sett upp. Hún getur borið sýkla í grímuna.
 • Grímur skila ekki tilætluðum árangri ef þær hylja ekki bæði nef og munn og ná niður fyrir höku.
 • Ekki er ætlast til að setja grímu á háls. Það eykur líkur á að sýklar komist niður á háls og mengað svæði grímunnar beri sýkla á aðra staði.