Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikilvægt að halda úti skólastarfi þrátt fyrir Covid

08.10.2020 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Þórisson
Formaður Skólastjórafélags Íslands segir mikilvægt að halda úti skólastarfi þrátt fyrir vaxandi fjölda smita í samfélaginu. Hann vill ekki senda grunnskólabörn heim líkt og gert var í vor til að bregðast við faraldrinum.

 

Nær daglega berast fregnir af því að nemendur í grunnskólum hafi verið sendir í sóttkví, annaðhvort tilteknir árgangar eða heilu skólarnir. Í dag voru til dæmis 320 nemendur og rúmlega 60 starfsmenn Í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ sendir í sóttkví eftir að starfsmaður greindist með smit. Hátt í hundrað börn á aldrinum 6 til 17 ára á landinu öllu eru nú í einangrun.

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, segir þetta vissulega áhyggjuefni en telur þó ekki tímabært að loka skólum og senda nemendur heim.

„Ég held að þessi vegferð sem við erum á að reyna eins og við getum að halda skólastarfi úti eins mikið og mögulegt er sé best vegna þess að við viljum ekki lenda í því eins og við lentum í á vormánuðum að skólunum sé bara lokað og börnin send heim í einhvern langan tíma því það var ekki gott,“ segir Þorsteinn.

Undir þetta tekur Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

„Það sýndi sig að það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að halda þessari daglegu rútínu. Mæta í skólann og hitta bæði samnemendur sína og kennara. Þannig að ef það er hægt þá held ég að við ættum að halda þessu meginmarkmiði gangandi að börn stundi staðnám eins og mögulegt er. En það mun auðvitað koma til ef það verður mikið samfélagssmit og heldur áfram að smitast svona á milli þá auðvitað verður og þarf að grípa til einhverra aðgerða. Ég vona að það komi ekki til,“ segir Þorgerður.

Þorgerður segist vissulega finna fyrir því að kennarar séu uggandi og eins aðrir í samfélaginu. Hins vegar séu þeir líka meðvitaðir um mikilvægi þess að halda úti skólastarfi. Þorsteinn segir að skólar standi sig almennt vel í sóttvörnum.

„Skólar eru auðvitað mismunandi í stakk búnir til þess að sett séu upp svona sóttvarnarhólf. Húsnæðið er mismunandi, aðgengi að skólanum er mismunandi og kennslufyrirkomulag er mismunandi en allir eru þó eins og best þeir geta að reyna að haga málum þannig að ef að upp kemur smit innan stofnunarinnar það sé þó ekki þannig að það loki á alla starfsemina,“ segir Þorsteinn.