Sænska akademían hefur opinberað val sitt á Nóbelsskáldi ársins 2020. Louise Glück fær verðlaunin fyrir „óyggjandi ljóðræna rödd sína, sem á íburðarlausan hátt gerir persónulega tilveru altæka.“
BREAKING NEWS:
The 2020 Nobel Prize in Literature is awarded to the American poet Louise Glück “for her unmistakable poetic voice that with austere beauty makes individual existence universal.”#NobelPrize pic.twitter.com/Wbgz5Gkv8C— The Nobel Prize (@NobelPrize) October 8, 2020
Glück er 16. konan til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hún er fædd árið 1943 og er eitt fremsta núlifandi skáld Bandaríkjanna. Fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1968 og heitir Firstborn. Glück hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir ljóð sín, þar má nefna Pulitzer verðlaunin, National Book Award, National Book Critics Circle Award og Bollingen-verðlaunin.
Ljóðum hennar hefur verið lýst sem sjálfsævisögulegum, þar sem hún tvinnar hinu goðsögulega, sögulega og hinu náttúrulega við eigin lífsreynslu. Í rökstuðningi sænsku akademíunnar segir meðal annars að hún sé bersögul og ósérhlífin í kveðskap sínum og hnífskarpt skopskyn skíni þar í gegn. Glück sé þó ekki það sem kallað er játningaskáld því hún leiti ávallt að hinu altæka í ljóðum sínum.
Síðasta ljóðskáldið til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum var hinn sænski Tomas Tranströmer, árið 2011. Það vill svo til að Louise Glück fékk Tranströmer-verðlaunin fyrir skemmstu og er ljóðskáld mánaðarins í sænska útvarpinu.
Upptöku frá tilkynningunni má sjá hér:
Undir eðlilegum kringumstæðum færi verðlaunaafhendingin fram við hátíðlega athöfn, að verðlaunahöfum og kóngafólki viðstöddu, í desember. Vegna heimsfaraldursins verður hún með öðru sniði, þar sem hin heppnu taka við verðlaunapeningum í skjóli heimila sinna í sjónvarpsútsendingu.