Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Leifar af sýkla- og geðlyfjum fundust í Tjörninni

08.10.2020 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkrar tegundir lyfjaleifa fundust í mælanlegum styrk bæði í Kópavogslæk og í Tjörninni í Reykjavík við sýnatöku Umhverfisstofnunar. Þar á meðal eru blóðþrýstings- og sýklalyf. Verkefnastjóri hjá stofnuninni segir líklegt að þetta komi úr gömlum, lekum holræsalögnum.

Umhverfisstofnun hefur kortlagt útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi. Sýni voru tekin í sjónum við Klettagarða, í Tjörninni í Reykjavík og í Kópavogslæk.

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir verkefnastjóri vatnamála hjá Umhverfisstofnun segir að níu efni hafi fundist í mælanlegum styrk.

„Við erum að finna ýmiss konar efni. Þetta eru kynhormón, flogaveikislyf, sýklalyf, bólgueyðandi, hjartalyf, geðlyf. Það er svona af öllum toga,“ segir Aðalbjörg.

Hún segir allt benda til þess að efnin hafi borist út í Tjörnina og Kópavogslæk í gegnum holræsakerfið.

„Það eru allar vísbendingar um það. Fyrst að við erum að finna þetta hérna innan þéttbýlis að það sé einhver leki í lögnum. Til dæmis eins og í kringum Tjörnina er mikið af gömlum lögnum sem gætu verið farnar að leka,“ segir Aðalbjörg.

Hún segir að nú sé verið að rannsaka hvort þetta sé skaðlegt fyrir menn og dýr.

„Það eru vísbendingar um það að þessi efni geti haft áhrif á lífríki. Það er verið að framkvæma rannsóknir núna í Evrópu að reyna finna út hvað nákvæmlega áhrif það eru,“ segir Aðalbjörg.

Þá hafa einnig fundist sýklalyfjaónæmar bakteríur á þessum stöðum og það sé áhyggjuefni.

„Og við viljum bara benda fólki á skila öllum lyfjaleifum til apóteka þar sem þau fara í örugga förgun. Alls ekki að sturta þeim niður í klósettið eða losa þau út í umhverfið. Þannig getum við lágmarkað það sem fer út,“ segir Aðalbjörg. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV