„Kom að þeim punkti að það var ekki annað hægt“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Kom að þeim punkti að það var ekki annað hægt“

08.10.2020 - 14:10

Höfundar

Þingkonan Rósa Björk Brynjólfsdóttir vakti athygli á dögunum þegar hún sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna þegar til stóð að vísa egypskri fjölskyldu sem hafði sótt um hæli af landi brott. Hún á að baki gifturíkan fótboltaferil með sigursælu liði Breiðabliks og segir það hvorki sjálfgefið né auðvelt að standa með sjálfri sér, heldur útheimti það þrautseigju og mikla vinnu.

„Ég er mikil keppnismanneskja, Sigurlaug, það verður nú bara að segjast eins og er,“ segir Rósa Björk sem var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér. „Ég hef verið að spila við börnin mín sjö og átta ára og það er hálfvandræðalegt hvað ég fagna mikið þegar ég sigra þau.“ Rósa á ekki langt að sækja keppnisskapið en hún lék knattspyrnu með gullaldarliði Breiðabliks sem sópaði til sín nánast öllum titlum um margra ára skeið. „Það var ekkert annað í boði en að vinna. Það var svolítið gott veganesti inn í lífið.“

Hún segist sjá keppnisskapið í mismiklum mæli hjá börnunum sínum þremur sjö, átta og 17 ára. Aðeins 11 mánuðir eru á milli yngri barnanna sem hún á með eiginmanni sínum Krisjáni Guy Burgess, sem er óvenjulegt fyrir fólk af þessari kynslóð. Hún segir það mikla vinnu að eignast börn með svona stuttu millibili, og alls ólíkt því að eignast tvíbura eins og sumir segja. „Þá ertu bara með eina meðgöngu og eina brjóstagjöf. En þarna tók ein meðganga og brjóstagjöf við af annarri. Þannig ég var meira og minna ólétt í þrjú ár með barn á brjósti. En góður tími, þetta lukkaðist vel og allir heilbrigðir, hraustir og glaðir. Þau eru miklir vinir.“

Ríkisstjórn Jóhönnu tendraði ástarbálið

Rósa segir að þrátt fyrir álagið hafi hún og eiginmaður hennar verið mjög samstíga í gegn um það allt. „Við erum miklir jafningjar og liðsmenn. Við náttúrulega erum ekki alveg í lagi, við förum að sofa og ræðum fjárlögin í rúminu. Rosa rómó. Svo pólitískt par.“ Hún og Kristján voru gamlir vinir úr Kópavoginum en kynntust aftur þegar þau unnu fyrir ríkisstjórn Íslands 2009-13. „Það kveikti ástareld, sú ríkisstjórn,“ segir Rósa glettnislega. Þrátt fyrir að vera pólitískt par voru þau hvort í sínum flokknum, Rósa í Vinstri grænum og Kristján Samfylkingunni. „Það var allt í góðu. Við erum á sömu brautum pólitískt þó það séu smá núansar, ég upplifi meiri róttækni hjá mér.“

Allt frá því Rósa man eftir sér var mikil stjórnmálameðvitund á heimili hennar sem og innan stórfjölskyldunnar. Þegar hún var einstæð móðir fluttist hún til Parísar þegar hún fékk vinnu á alþjóðlegri sjónvarpsstöð. „Það var tækifæri sem ég gat ekki látið renna úr mínum greipum.“ Þá hefur hún einnig búið með eiginmann sínum í Brooklyn í New York í eitt ár, og þrjá mánuði í Peking.

Enginn afsláttur af mannúðinni

Rósa segir það alls ekki auðvelda ákvörðun að segja sig úr stjórnmálaflokki sem hún er kosin á þing fyrir. Þá hafi hún fundið fyrir aukinni ábyrgð því hún var oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. „En svo kom að þeim punkti að það var ekki annað hægt. Ég hef miklar og sterkar skoðanir á málefnum útlendinga og hælisleitenda og flóttafólks. Ég var gagnrýnin á stefnuleysi sem hafði ríkt í málaflokknum undanfarin ár og orðið fyrir vonbrigðum.“ Rósa gegnir einnig embætti varaformanns flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins. „Í gegnum það starf hef ég séð nauðsyn þess að taka sterka og afdráttarlausa afstöðu með mannúðinni. Fólk sem er á flótta er í erfiðustu og viðkvæmustu stöðunni og mér finnst við ekki geta gefið neinn afslátt þegar kemur að þeim.“

Eftir að Rósa hafði ákveðið að segja sig úr flokknum hitti hún Katrínu Jakobsdóttur og átti með henni klukkutíma fund þar sem hún tilkynnti henni ákvörðunina, en þær eru gamlar skólasystur og vinkonur. „Þannig þetta var líka erfitt persónulega. Það voru alls konar tilfinningar sem bærðust með mér. En ég fann líka að þetta var rétt ákvörðun.“

Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við Rósu Björk Brynjólfsdóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í útvarpsspilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Leiklist

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn

Leiklist

Sveppi er sá eini sem kann ekki danssporin

Trúarbrögð

„Ég læt brimið dynja á mér án þess að gefa eftir“

Menningarefni

Kippt inn í heim fullorðinna við fráfall föður síns