Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hrósar vel undirbúnum krökkum í Sunnulækjarskóla

08.10.2020 - 14:30
Skimun í Sunnulækjarskóla
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt - Ljósmynd
„Þetta gengur bara rosalega vel, engar biðraðir myndast og allir rosalega tilbúnir í þetta, góður stuðningur hjá öllum og krakkarnir standa sig rosalega vel við þetta,“ segir Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni á Selfossi um víðtæka skimun í Sunnulækjarskóla á Selfossi í dag. Til stendur að skima 550 nemendur og 50 kennara í dag, alls 600 manns, og þegar rætt við við Margréti rétt fyrir tvö var búið að skima um 300.

Margrét segir að þau hafi gefið sér tíma til fjögur, en verði að eins lengi og þurfi. „Þetta verður klárað í dag og ef þetta gengur eins og er búið að ganga þá verðum við búin að þessu klukkan fjögur,“ segir hún og hrósar krökkunum sérstaklega.

„Þau eru alveg ótrúlega vel undirbúin. Það var búið að senda á alla foreldra svona færnisögur þannig að þau gátu verið búin að undirbúa krakkana fyrir þetta, og þau bara standa sig alveg rosalega vel og engin vandamál komið upp.“

Fáeinir með einkenni og fóru frekar á spítalann

Tilefni sýnatökunnar er að þrír sem verið höfðu í skólanum greindust smitaðir, en ekki er hins vegar vitað til þess að neinn hafi smitast innan veggja skólans. Fólk með einkenni var beðið um að koma ekki í þessa sýnatöku, en fara heldur upp á sjúkrahús í einkennaskimun þar. Margrét segist vita til þess að einhverjir hafi nýtt sér þann kost, en að það sé smár hópur – ekki fleiri en 20. Enginn hafi mætt með einkenni í íþróttasalinn sem notaður er sem skimunarstöð.

En hvenær má fólk vænta niðurstöðu?

„Sýnin fara ekki héðan fyrr en eftir að við erum búin, þannig að þau koma örugglega ekki í bæinn fyrr en um fimmleytið – þannig að það fer bara eftir því hvað er mikið að gera í bænum, hvort einhverjir fá í kvöld eða annars bara í fyrramálið,“ segir Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunarstjóri.