Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frjáls ráðstöfun nefskatts „áhugaverð hugmynd“

08.10.2020 - 11:38
Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist telji breiða samstöðu vera um að almannaútvarp gegni mikilvægu hlutverki og að taka þurfi afstöðu til ýmissa grundvallarspurninga áður en hægt væri að ráðast í róttækar breytingar á fjárframlögum til Ríkisútvarpsins.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun um hvort hann telji mögulegt að almenningi verði gert frjálst að ráðstafa nefskatti sínum, útvarpsgjaldinu til RÚV, að eigin vali til einkarekinna miðla og styrkja þannig rekstur þeirra með einföldum hætti.

„Þetta er áhugaverð hugmynd en hún er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar,“ svaraði Bjarni og sagði að fyrst þyrfti að fara fram umræða um það hvort ríkið ætti að reka almannaútvarp og hvernig það ætti að vera fjármagnað. Bjarni sagði að ákveðinn galli væri í fyrirkomulaginu núna, þar sem framlög til Ríkisútvarpsins sveiflist með hagkerfinu. Þúsund nýjar kennitölur á fyrirtækjaskrá eigi ekki að leiða til þess að verkefni RÚV verði umfangsmeiri. „Þarna held ég að sé ákveðin rökleysa í fyrirkomulaginu,“ sagði Bjarni. 

Bjarni sagði Ríkisútvarpið ekki hafið yfir gagnrýni, sérstaklega varðandi veru á auglýsingamarkaði. Hann lýsti því sem svo að RÚV væri eins og einstofna tré með rætur hjá ríkinu, en einkareknir miðlar væru eins og litlar plöntur sem fá ekki á sig sólina því tréð væri svo umfangsmikið. Það væri ráð að auka andrými frjálsu fjölmiðlanna til að bjarga sér sjálfum.

400 milljónum var útdeilt til einkarekinna fjölmiðla í síðasta mánuði, til að mæta efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins.