Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Faxabraut hækkuð um tvo metra fyrir hálfan milljarð

08.10.2020 - 10:56
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Tæplega hálfan milljarð kostar að hækka Faxabraut á Akranesi um tvo metra. Það er fyrsta skrefið í að því að á fjórða hundrað íbúða rísi þar sem Sementsverksmiðja ríkisins stóð áður.

Hækkun Faxabrautar á Akranesi og efling sjóvarnargarðs kostar rúmlega 450 milljónir og á að ljúka í september á næsta ári. Faxabraut telst sem þjóðvegur í þéttbýli og því greiðir ríkið stærstan hluta kostnaðar. 

Óskar Sigvaldason er framkvæmdastjóri Borgarverks ehf.

„Þetta hefur farið bara ágætlega af stað. við erum búnir að vera að keyra út núna í átta daga. Kominn svolítill massi út og höfum verið að vinna efni úr námunni. Þannig það gengur bara ágætlega.“

Nauðsynlegt að hækka veginn áður en íbúabyggð rís

Líkt og sést á myndum sem voru teknar fyrir skemmstu gengur sjórinn langt á land þegar brimar við núverandi skilyrði. Hækkun um tvo metra er því mikilvæg áður en fyrirhuguð íbúabyggð má rísa á Langasandsreit. 

 „Við vorum að rífa Sementsverksmiðju ríkisins, eins og flestir landsmenn þekkja, og erum núna að sjá aðdragandann að því að hækka sjóvarnargarðinn og götuna og verja þá framtíðarbyggð sem mun rísa hér á þessum fallega stað,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. 

Um 370 íbúðir og Skagamönnum fjölgar um þúsund

Áætlað er að byggja um 370 íbúðir ofan við Faxabraut auk verslunar- og þjónusturýmis. Með því gæti Skagamönnum fjölgað um þúsund manns. Það er um þrettán prósenta aukning á íbúafjölda sveitarfélagsins sem telur í dag um 7500.

„Við viljum bara bjóða alla velkomna í þennan hamingjusama bæ sem Akranes er," segir Sævar.

Hann segist búast við því að byggð fari að rísa að ári.

„Þannig að núna er þetta bara að fara að gerast.“