Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki verið fleiri smit utan sóttkvíar en í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
54 af þeim 94 innanlandssmitum sem greindust í gær voru utan sóttkvíar og hafa ekki verið fleiri í þriðju bylgju faraldursins. Smitstuðull utan sóttkvíar er enn hár eða 2 sem þýðir að hver og einn smitar að meðaltali tvo aðra út frá sér og þannig koll af kolli.

Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði, nefnir sem dæmi þá hundrað sem greindust á þriðjudag.  „Ef smitstuðullinn er í kringum tvo og helmingurinn var utan sóttkvíar hafa þessir fimmtíu gefið af sér hundrað smit. Þess vegna heldur þessi fjöldi áfram,“ útskýrir Thor í samtali við fréttastofu.

Það sé því viðbúið að áfram greinist mörg smit næstu daga. Hann bendir á að í fyrstu bylgjunni hafi myndast hálfgerð breiða af mörgum smitum þegar farsóttin náði hámarki um miðjan mars og fram í byrjun apríl.  

Fram kom í upplýsingafundi almannavarna í dag að þótt flestir hinna smituðu væri einkennalitlir væru 59 skráðir með litakóðann gulan hjá COVID-göngudeildinni. Það þýðir að þeir eru ekki í bata heldur eru að verða veikari. Þá eru 9 með litakóðann rauðan en þeir sjúklingar eru taldir líklegir til að þurfa á innlögn að halda.

Langstærsti hluti þeirra sem greinast jákvæðir eru búsettir eða með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. 846 eru í einangrun og af þeim eru 727 í höfuðborginni. Fjölmennasti hópurinn sem er í einangrun er á aldrinum 18 til 29 ára eða 250. 

Það sem veldur ákveðnum áhyggjum er að 106 er 60 ára og eldri. Af þeim eru 5 á tíræðisaldri og 10 á níræðisaldri.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV