Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ég vissi ekki einu sinni að þessi listi væri til“

08.10.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
„Það er ekki gott ef einhver er að nota nafnið mitt. Ég kem af fjöllum með þetta,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaungsson, formaður Miðflokksins, um að nafn hans sé að finna á umdeildum undirskriftarlista á netinu þar sem ráðamenn um allan heim eru hvattir til að hverfa frá hörðum aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Um fimmtíu íslensk nöfn eru á listanum, þar á meðal nafn Sigmundar, en hann segist ekki hafa skrifað undir listann. „Ég vissi ekki einu sinni að þessi listi væri til,“ segir hann. Þá segist hann ekki geta tekið afstöðu til þess sem krafist er með listanum, þar sem hann viti ekki hvers er krafist.

Rúmlega 140 þúsund manns hafa skrifað undir lista Great Barrington. Um fjórtán þúsund heilbrigðisstarfsmenn hafa skrifað undir, þar á meðal nokkrir íslenskir læknar. Kallað er eftir því að aukin áhersla sé lögð á að vernda viðkvæmustu hópana en heilbrigðu fólki leyft að lifa eðlilegu lífi og ná hjarðónæmi. Núverandi aðgerðir eigi eftir að hafa alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar.

Uppfært 21:00
Eftir að fjallað var um listann í dag hefur fjöldi fólks verið skráð á hann sem gerði það ekki sjálft.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV