Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Dekkjahöllinni á Akureyri lokað vegna smits

08.10.2020 - 09:43
Innlent · Akureyri · Dekk · Norðurland
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Starfsmaður Dekkjahallarinnar á Akureyri greindist með Covid-19 í gærkvöld. Meðan unnið er að smitrakningu hefur verkstæðinu verið lokað.

Var við vinnu á mánudag og þriðjudag

Starfsmaðurinn sem um ræðir var við vinnu á mánudag og þriðjudag áður en hann fann fyrir einkennum í gær. Hann fór í framhaldið í skimun sem gaf jákvæða niðurstöðu í gærkvöldi. Þetta staðfestir Elín Dögg Gunnarsdóttir, fjármálastjóri fyrirtækisins. 

Hún segir að eftir ráðfæringar við yfirvöld hafi verið ákveðið að loka fyrirtækinu tímabundið. „Við viljum ekki taka neina sénsa, starfsmaðurinn sem smitaðist var við vinnu á mánudag og þriðjudag en einkennalaus. Smitrakningarteymið er núna að fara yfir stöðuna og um leið og við vitum hverjum er óhætt að mæta til vinnu getum við farið að huga að opnun. Vonandi bara sem fyrst,“ segir Elín. 

Ekki góður tímapunktur

Elín segir smitið koma upp á versta tíma. „Það er auðvitað vertíð hjá okkur núna svo þetta kemur ekki á góðum tíma. En við tökumst bara á við þetta, fylgjum öllum fyrirmælum og gerum þetta vel.“