Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bætur vegna varðhaldsvistar Guðmundar hækka enn

08.10.2020 - 17:21
Guðmundur Rúnar Guðlaugsson sat saklaus í einangrun í 11 daga á lögreglustöðinni við Hverfisgötu árið 2011. Með því braut lögregla og íslenska ríkið gegn stjórnarskrárbundnum rétti hans.
 Mynd: Rúv - Kastljós
Íslenska ríkið var í sumar dæmt til að greiða Guðmundi R. Guðlaugssyni 5,6 milljónir króna í skaðabætur fyrir tekjutap sem hann varð fyrir í kjölfar gæsluvarðhaldsvistar vorið 2010. Hann hafði áður fengið greiddar tvær milljónir og upphæðin gæti enn hækkað.

Guðmundur hefur árum saman barist fyrir því að fá hlut sinn réttan vegna málsins, og meðal annars komið fram í viðtölum um það hversu þungbært það var honum. Hann hafi misst heilsu vegna þess og verið meira og minna óvinnufær síðan.

Margir fengu þunga dóma en Guðmundur engan

Guðmundur var handtekinn á heimili sínu í apríl 2010 vegna rannsóknar á innflutningi á þremur kílóum af kókaíni frá Suður-Ameríku, sem sonur hans var viðriðinn. Sonurinn var á endanum dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir peningaþvætti og fjórir aðrir fengu þunga dóma.

Guðmundur sat í gæsluvarðhaldi í tíu daga en rannsóknin á hendur honum var látin niður falla. Hæstiréttur dæmdi honum tvær milljónir í miskabætur árið 2017 fyrir þessa löngu varðhaldsvist, en taldi að hann hefði sjálfur stuðlað að lögregluaðgerðunum í upphafi.

Var sannanlega óvinnufær í tvö ár

Guðmundur höfðaði fyrir tveimur árum annað bótamál á hendur ríkinu. Þar krafðist hann í fyrsta lagi skaðabóta fyrir vinnutap í þau tvö ár sem hann var óvinnufær samkvæmt mati sérfræðinga.

Á þetta féllst Héraðsdómur Reykjavíkur í dómi sem var kveðinn upp í júní en birtist ekki á vef dómstólsins. Fyrir þetta fékk Guðmundur 5,6 milljónir, en ríkið áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Landsréttar sem ekki hefur tekið þann þátt málsins fyrir.

Guðmundur Rúnar Guðlaugsson sat saklaus í einangrun í 11 daga á lögreglustöðinni við Hverfisgötu árið 2011. Með því braut lögregla og íslenska ríkið gegn stjórnarskrárbundnum rétti hans.
 Mynd: Rúv - Kastljós

Landsréttur fellir frávísun úr gildi

Guðmundur krafðist einnig þjáningarbóta upp á rúma milljóna, en slíkum bótum á óvinnufært fólk rétt á ofan á skaðabætur fyrir tekjutap. Þar að auki krafðist hann bóta upp á um átta milljónir fyrir varanlegan miska, enda hafi hann orðið fyrir áfallastreituröskun og varanlegum andlegum skaða. Þessum kröfum vísaði héraðsdómur frá, taldi þjáningarbótakröfuna ekki studda nægum gögnum og hina kröfuna í raun þegar bætta með fyrri dómi Hæstaréttar.

Þetta fór fyrir líka Landsrétt sem felldi síðari frávísunina úr gildi fyrr í vikunni, enda girði miskabætur fyrir gæsluvarðhaldsvist ekki fyrir frekari bætur fyrir varanlegt heilsutjón. Hin frávísunin stendur en Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Guðmundar, segist í samtali við fréttastofu munu höfða nýtt mál til að innheimta þjáningarbæturnar.

Krefst 50 milljóna fyrir varanlegt tekjutap

Þá er ótalið stærsta dómsmál Guðmundar gegn ríkinu, sem þurfti að kljúfa frá málinu frá 2018 og var höfðað að nýju fyrir nokkrum dögum. Það helst í hendur við kröfuna um bætur fyrir varanlegan miska: í því krefur Guðmundur ríkið um rúmar fimmtíu milljónir í skaðabætur fyrir tekjutap til allrar framtíðar. Ríkislögmaður hefur nú frest til að skila greinargerð í því máli.